Mann­kyninu stafar mikil ógn af lyfja­ó­næmi sam­kvæmt nýrri rann­sókn. Bakteríur sem hafa þróað með sér lyfja­ó­næmi drápu minnst 1,2 milljónir manns um allan heim árið 2019 og dregur um 3500 manns til dauða á degi hverjum.

Jafn víð­tæk rann­sókn á á­hrifum lyfja­ó­næmis hefur ekki verið fram­kvæmd til þessa en niður­stöðurnar gefa til kynna að lyfja­ó­næmar bakteríur séu með leiðandi dánar­or­sökum á heims­vísu. Árið 2019 dóu fleiri vegna lyfja­ó­næmis en af al­næmi eða malaríu.

Rann­sóknin var birt í vísinda­ritinu The Lancet og skoðaði gögn í rúm­lega tvö hundruð löndum og ríkjum. Talið er að tæp­lega fimm milljón dauðs­föll megi rekja til lyfja­ó­næmis baktería með ó­beinum hætti.

Börn undir fimm ára í mestri hættu

Börn eru í sér­stökum á­hættu­hóp vegna lyfja­ó­næmis en rann­sóknin fann að í einu af hverjum fimm dauðs­föllum var um barn að ræða undir fimm ára aldri.

Hæsta hlut­fall dauðs­falla vegna lyfja­ó­næmis var í Afríku sunnan Sahara og í suður Asíu. Þar voru 24 dauðs­föll á hundrað þúsund íbúa í Afríku sunnan Sahara og 22 dauðs­föll á hundrað þúsund íbúa í suður Asíu.

Í há­tekju­löndum mátti rekja þrettán dauðs­föll á hundrað þúsund íbúa beint til lyfja­ó­næmis en 56 dauðs­föll á hundrað þúsund íbúa ó­beint.

Rann­sak­endur segja niður­stöðurnar undir­strika mikil­vægi þess að bregðast við lyfja­ó­næmi með af­gerandi hætti. Meðal annars að endur­hugsa hvernig sýkla­lyf eru notuð, fylgjast betur með sýkingum og fjár­magna þróun nýrra lyfja og með­ferða.