Mannkyninu stafar mikil ógn af lyfjaónæmi samkvæmt nýrri rannsókn. Bakteríur sem hafa þróað með sér lyfjaónæmi drápu minnst 1,2 milljónir manns um allan heim árið 2019 og dregur um 3500 manns til dauða á degi hverjum.
Jafn víðtæk rannsókn á áhrifum lyfjaónæmis hefur ekki verið framkvæmd til þessa en niðurstöðurnar gefa til kynna að lyfjaónæmar bakteríur séu með leiðandi dánarorsökum á heimsvísu. Árið 2019 dóu fleiri vegna lyfjaónæmis en af alnæmi eða malaríu.
Rannsóknin var birt í vísindaritinu The Lancet og skoðaði gögn í rúmlega tvö hundruð löndum og ríkjum. Talið er að tæplega fimm milljón dauðsföll megi rekja til lyfjaónæmis baktería með óbeinum hætti.
Börn undir fimm ára í mestri hættu
Börn eru í sérstökum áhættuhóp vegna lyfjaónæmis en rannsóknin fann að í einu af hverjum fimm dauðsföllum var um barn að ræða undir fimm ára aldri.
Hæsta hlutfall dauðsfalla vegna lyfjaónæmis var í Afríku sunnan Sahara og í suður Asíu. Þar voru 24 dauðsföll á hundrað þúsund íbúa í Afríku sunnan Sahara og 22 dauðsföll á hundrað þúsund íbúa í suður Asíu.
Í hátekjulöndum mátti rekja þrettán dauðsföll á hundrað þúsund íbúa beint til lyfjaónæmis en 56 dauðsföll á hundrað þúsund íbúa óbeint.
Rannsakendur segja niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi þess að bregðast við lyfjaónæmi með afgerandi hætti. Meðal annars að endurhugsa hvernig sýklalyf eru notuð, fylgjast betur með sýkingum og fjármagna þróun nýrra lyfja og meðferða.