TVG-Zimsen, dótturfélags Eimskips, sér um innflutning á bóluefni Moderna sem er væntanlegt til landsins í fyrramálið en lyfjaflutningabíllinn er sérhannaður fyrir íslenskar aðstæður.

Um 1.200 skammtar af bólu­efni Moderna eru væntan­legir til landsins á morgun. Þessir skammtar munu fara í að klára að bólu­setja fram­línu­starfs­menn, einkum á höfuð­borgar­svæðinu.

Elísa Dögg Björnsdóttir, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen, segist stolt að fá að taka þátt í verkefninu.

„Á þessum tímum kemur sér vel að vera með sérþjálfað fólk og tæki til lyfjaflutninga og við tökum stolt þátt í þessu mikilvæga verkefni er varðar okkur öll,“ segir Elísa Dögg.

Sérhæfður lyfjaflutningabíll í eigu TVG-Zimsen verður notaður við flutninginn en hann er sérstaklega hannaður út frá ströngustu kröfum um lyfjaflutninga. Þetta er fyrsti lyfjaflutningabíllinn í heiminum sem er sérstaklega hannaður fyrir íslenskar aðstæður.

Meðal eiginleika bílsins eru einangraðar hurðar, hraðlokandi fellitjald að aftan svo ekki tapist hiti úr bílnum við lestun og losun. Bílstjóri er með fullkomna yfirsýn yfir hitastig bílsins.

Bíllinn er með einangruðum hurðum og hraðlokandi fellitjaldi.
Mynd: TVG-Zimsen

Bóluefnið kemur frá Spáni í gegnum Belgíu

Í tilkynningu frá TVG-Zimsen kemur fram að gríðarlega mikilvægt sé að allt gangi upp og allir sem taki þátt í verkefninu þekki sitt hlutverk. Flutningakeðja bóluefnisins hefst á Spáni þar sem bóluefnið er framleitt en sendingin kemur til Íslands í fyrramálið úr vöruhúsi í Belgíu, þar sem efnið er hýst. Þar er bóluefninu pakkað í sérstakar pakkningar sem halda hitastiginu réttu í flutningi. Því næst fer sendingin í flug til Íslands þar sem sérfræðingar TVG-Zimsen taka á móti sendingunni í Keflavík, tollafgreiða og koma henni örugglega á áfangastað við rétt hitastig í sérútbúnum lyfjaflutningabíl en starfsfólk hefur verið sérþjálfað til lyfjaflutninga og uppfylla ítrustu kröfur varðandi slíka flutninga.

Verkefnið er gert í samstarfi við Kuehne+Nagel, eina af stærstu alþjóðlegu flutningsmiðlunum í heiminum og eitt fremsta fyrirtæki á sviði lyfjaflutninga í heiminum.

Elísa Dögg Björnsdóttir, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen.
Mynd: Gígja Einarsdóttir