Ný rann­sókn benda til þess að lyf sem er notað til að minnka líkur á brjósta­krabba­meini geti virkað í langan tíma eftir að töku þess er hætt. Lyfið, sem heitir Anastrozo­le, hindrar fram­leiðslu estró­gens sem veldur oft brjósta­krabba­meini og hefur einnig verið notað í með­ferð við brjósta­krabba­meini. Niður­stöður rann­sóknarinnar hafa verið birtar í lækna­tíma­ritinu Lancet.

Lyfið hefur fáar aukaverkanir

Lyfið er ein­göngu hægt að gefa konum sem komnar eru yfir breytingar­skeið þar sem það hindrar ekki estró­gen-fram­leiðslu í yngri konum. Fyrri rann­sóknir höfðu sýnt fram á að líkur á brjósta­krabba­meini minnkuðu um helming á fimm ára tíma­bili. Ný rann­sókn sem tók til tæp­lega fjögur þúsund kvenna sýnir hins vegar að sjö árum eftir að þær höfðu hætt að taka lyfið var tíðni brjósta­krabba­meins enn tæp­lega fimm­tíu prósent lægri.

Konum sem komnar eru yfir breytingar­skeið og teljast í mikilli á­hættu fyrir að fá brjósta­krabba­mein hefur síðan 2017 verið ráð­lagt að taka lyfið. Einungis tíu prósent þeirra eru hins vegar taldar gera það, þó að lyfið hafi mjög fáar auka­verkanir.

Tvöfalt dýrara lyf hefur ekki gefið jafn góða raun

Þó að til­raunir með lyfið hafi gefið góða raun segir í frétt BBC að sumar konur séu í svo mikilli á­hættu á að fá brjósta­krabba­mein að jafn­vel þó að lyfið sé tekið sé þeim ráð­lagt að fara í brjóst­nám.

Annað lyf á markaði, Tam­oxi­fen, hefur verið notað sem for­vörn gegn brjósta­krabba­meini en hefur ekki gefið jafn­góða raun. Tam­oxi­fen er rúm­lega tvö­falt dýrara en Anastrozo­le, en hefur það fram yfir síðar­nefnda lyfið að geta verið gagn­legt konum áður en þær ganga í gegnum breytinga­skeiðið.

Kynna þarf lyfið betur

Læknar og sér­fræðingar sem BBC talaði við segja þessar niður­stöður muni koma til með að hjálpa konum að á­kveða hvort að þær ættu að taka Anastrozo­le. Það sé aftur á móti á­hyggju­efni að ekki öllum konum sem teljist vera í á­hættu­hópi sé boðið upp á lyfið. Nauð­syn­legt sé að kynna lyfið og niður­stöður rann­sóknanna fyrir bæði læknum og sjúk­lingum þeirra.