Flest lyf sem mis­notuð eru af föngum á Ís­landi koma frá SÁÁ. Þetta segir Þráinn Farest­veit, fram­kvæmda­stjóra Verndar fanga­hjálpar, í samtali við Guðmund Inga Þóroddsson, formann Afstöðu í nýjasta hlað­varps­þættinum af Frelsið er yndis­legt.

Um er að ræða lyfið Suboxone en SÁÁ hefur veitt sjúklingum sem sprauta ópíóðum í æð viðhaldameðferð með lyfinu. Guðmundur Ingi segir í samtali við Fréttablaðið að lyfið gangi kaupum og sölum í fangelsum og seljendur séu ekki aðeins fangar sem eru í viðhaldsmeðferð inn í fangelsum heldur tróni lyfið einnig á toppi þeirra efna sem smyglað er inn í fangelsin.

„Það er auð­vitað í mörgum til­vikum mjög eðli­legt að menn fái lyf og séu undir læknis­höndum vegna vanda sem þeir eru staddir í og ekkert að því,“ segir hann. „Það er hins­vegar bæði magnið og fjöldi sem oft setur spurninga­merki við það hvað er verið að gera.“

Í viðtalinu segist Þráin ræða lyfjamálin við skjólstæðinga sína á Vernd. „Ég held að maður þurfi líka að spyrja sig að því af hverju er verið að nota svona mikið af lyfjum? Ef mér liði mjög illa og væri þar sem væru bara mjög ó­full­nægjandi að­stæður og ég vildi deyfa mig fyrir þeirri stað­reynd þá er þetta auð­vitað aðal og besti kosturinn í þeirri leið.“

Verðið stórhækkar í fangelsunum

Fram kemur í þættinum að vímu­efna­neysla fanga hafi færst meira í notkun lyfja. Þráinn segir að hópurinn sé fjöl­breyttur. Leitað sé leiða til að deyfa sig fyrir að­stæðunum og því séu lyfin svo stór hluti af þeirri neyslu sem eru í fangelsunum.

Að­spurður segist Þráinn oft hafa lýst á­hyggjum sínum af utan­að­komandi efnum í fangelsunum. Einingar af átta millí­grömmum af ópíóða­lyfi líkt og Suboxone seljast í bænum á 3-4 þúsund krónur að sögn Þráins. Í fangelsunum sé hins­vegar hægt að fá 16-24 þúsund krónur fyrir þau.

„Það gefur auga­leið að þetta er úr­vals­vara fyrir akkúrat þennan hóp. Ég þekki ekki vímuna af því en hef heyrt að víman sé mikil og erfið. Ég er hins­vegar á því að lyfið sé nauð­syn­legt fyrir vissan hóp af ein­stak­lingum,“ segir Þráinn.

„Það sem ég get gagn­rýnt er inn­takan en ekki efnið. Af hverju segi ég inn­takan? Jú, vegna þess að efnið er til í sprautu­formi. Og við­halds­með­ferð sem þessi, með forða­sprautu, er alveg nauð­syn­leg fyrir þennan hóp.“

Hann segir marga hafa blómstrað eftir að Vernd breytti um á­herslur í mála­flokknum. „En vandinn er samt sem áður alltaf til staðar, að það eru lyf sem er verið að af­greiða sem fara svo í annað. Menn eru mis­háðir peningum og ef þú getur fengið pening fyrir eitt­hvað sem þú ert með í höndunum þá gera menn það, óháð því hvar menn eru staddir hugar­fars­lega í sínu bata­ferli eða veg­ferð í lífinu.“

Spyr hvað færi inn í staðinn

Að­spurður að því hvort hægt væri að kenna SÁÁ um þennan vanda í fangelsunum segist Þráinn ekki telja það. „Hvaða önnur lyf værum við að mis­nota ef við ætlum að deyfa okkur, hvað færi þá inn í staðinn? Hvað væru menn að nota?“

Hann segir erfitt að kenna lyfinu um sem slíku. „En ég er á því ef að það væru fleiri sem væru í við­halds­með­ferð og lyfið væri minna í um­ferð, að þá myndu fleiri halda þessu til streitu, að vera í forða­sprautu­með­ferð heldur en í þessu sem við sjáum svo vel, að ein­staklingar sem eru á þessari veg­ferð, sem eru búnir að vera í af­brotum, mikilli neyslu, að hluti af hegðunar­vandanum er auð­vitað þessi að vera í ein­hverju sem getur hagnast þeim,“ segir Þráinn.

Um leið og þú ert kominn með eitt­hvað í hendurnar eins og þetta, þar sem þú færð alltaf ein­hvern skammt með reglu­legu milli­bili, er á­hættan fyrir sam­fé­lagið, ekki kannski þann sem er að nota það, meiri. Af því það er auð­vitað sjálf­gefið, og ég veit það og ég tala við þessa stráka og þeir segja mér nú bara það sem ég vil spyrja um, að þá er freistingin svo mikil að reyna að hafa ein­hvern pening upp í eitt­hvað annað ef það ber undir. Eins og ég segi, það er inn­takan, það er ekki efnið.“

Þráinn út­skýrir að búið sé að gefa heimild fyrir notkun á forða­sprautun. „Heimildin nær til mjög fárra og ég veit að SÁÁ og sjúkra­húsið sér fyrir sér að þetta verði þannig ein­göngu,“ segir Þráinn.

„En á meðan lyfið er svona dýrt og hömlum háð er verið að reyna að hjálpa þeim ópíóð­sjúk­lingum sem eru verst farnir, með þessu efni. Það er bara ekkert þannig, en við vitum það að þetta tekur oft tíma. Það tekur auð­vitað mörg líf á meðan en á meðan við getum séð fyrir okkur að þetta verði, þá er ég nokkuð sáttur við það og ég ætla ekki að banna ein­stak­lingum sem eru á þessu lyfi að koma á Vernd.Ég tel bara að reynsla okkar af því sé sú að það hjálp mönnum frekar en hitt.“