Hingað til lands er í fyrsta skipti komið svo­kallað lúxus­skrímsli. Eftir því sem Frétta­blaðið kemst næst er það eitt sinnar tegundar, komið frá plánetunni Lúx­múx og ættu lands­menn að geta heim­sótt þessa kynja­veru í Foss­vogs­dalinn í Kópa­vogi til að „upp­lifa al­vöru lúxus“ fram í septem­ber­mánuð.

Frá þessu greina tveir ungir lista­menn í sam­tali við Frétta­blaðið. Þeir Helgi Grímur Her­manns­son, ný­út­skrifaður sviðs­höfundur, og Jökull Smári Jakobs­son leik­listar­nemi, opnuðu í gær­kvöldi sýningu sína á Lúxus­skrímslinu svo­kallaða, „lifandi“ skúlptúr sem þeir hafa komið fyrir í lítilli tjörn við göngu­stíg í Foss­vogs­dalnum. Tjörnina hafa þeir nú nefnt Lúxus­lindina og mun skrímslið baða sig þar í mestu makindum næstu vikurnar.

Úr sviðslist í myndlist

Verkið er af­rakstur skapandi sumar­starfs á vegum Kópa­vogs­bæjar en þeir fé­lagar sóttu um að starfa sem mynd­lista­menn hjá bænum í sumar, alls ó­reyndir í öllu sem við kemur mynd­list enda báðir sviðs­lista­menn. „Hug­myndin var upp­haf­lega að koma með smá leik­hús inn í mynd­listina og finna um­hverfi í Kópa­vogi þar sem hægt væri að skapa nýtt líf eins og leik­húsið gerir náttúru­lega,“ segir Jökull.

Lista­­mennirnir við hálf­­klárað skrímslið síðasta mið­viku­­dag. Vinstra megin situr Jökull Smári en til hægri er Helgi Grímur.
Fréttablaðið/Valli

Fjöldi fólks hjálpaði þeim fé­lögum við ferlið að þeirra sögn en þeir leituðu ráða hjá reyndu mynd­listar­fólki á borð við Bryn­hildi Þor­geirs­dóttur. „Við fengum í raun upp­skrift og erum búnir að fylgja henni. Þetta er ó­trú­leg hjálp sem við höfum fengið,“ út­skýrir Jökull.

Þeir Helgi á­kváðu því að rölta um allan Kópa­vogs­bæ og vinna saman að hug­myndum um skemmti­legan skúlptúr til að koma fyrir ein­hvers staðar og eftir mikla hug­mynda­vinnu komust þeir að niður­stöðu um Lúxus­skrímslið. „Þessi hug­mynd er búin að éta okkur lifandi í sumar. Við gátum ekki sleppt takinu af henni og urðum að fram­kvæma hana,“ segir Helgi.

Íslendingar eru hálfgerð lúxusskrímsli

Hann segir að­spurður að þeir hafi átt nokkuð erfitt með að finna ein­hverja á­kveðna merkingu verksins. „Ég held samt í grunninn að það sé bara að Ís­lendingar eru svo­lítil lúxus­skrímsli yfir höfuð,“ segir hann eftir nokkra um­hugsun.

„Við erum ekkert endi­lega að leita að ein­hverjum boð­skap,“ segir Jökull þá. „En skrímslið mun tákna eitt­hvað fyrir öllum og skrímslið er í rauninni bara karakter sem við bjuggum til og það er alltaf í stans­lausri leit að lúxus.“

Jökull og Helgi vígðu lista­verkið í gær­kvöldi í glampa­sól­skini. Nokkur mann­fjöldi var við­staddur vígsluna.
Fréttablaðið/Valli

Og það er enginn smá lúxus sem nú má finna við Lúxus­lindina í Foss­vogs­dalnum og getur fólk gert sér ferð þangað og fengið að upp­lifa lúxusinn með skrímslinu sjálfu. Meira að segja hlustað á sér­út­búna „skrímsla­slökunar­tón­list“. „Það er rosa­lega margt í kringum þetta. Við hönnuðum lúxus­skrímsla­kok­teil í sam­starfi við barinn Alda­mót, sem verður á seðli þar á meðan skrímslið er uppi. Svo fengum við ýmsa tón­listar­menn til að semja átta laga plötu með skrímsla­slökunar­tón­list,“ segir Helgi.

Þá er einnig ætlunin að halda ein­hverja lúxu­s­við­burði á svæðinu við tæki­færi og bera lista­menn til dæmis upp hug­myndir um úti­jóga og -hug­leiðslu með lúxus­skrímslinu. „Skrímslið kom hingað til jarðar frá plánetunni Lúx­múx til að dreifa boð­skap um lúxusinn og mikil­vægi hans. Skrímslið vill fyrst og fremst að mann­eskjur upp­lifi lúxus,“ segir Helgi.

Verndarinn ekki af verri endanum

En lúxus­skrímsli sem er ný­komið til jarðarinnar þarf að eiga sér sér­stakan verndara að sögn lista­mannanna. Þeir á­kváðu að leita til mestu lúxus­manneskju sem þeir könnuðust við; Önnu Þóru Björns­dóttur, eig­anda gler­augna­verslunarinnar Sjáðu, og uppi­standara. Hún hikaði ekki við að taka að sér þetta á­byrgðar­fulla hlut­verk enda segist hún tengja sterkt við skrímslið.

Anna Þóra segist sjáf vera lúxusskrímsli.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Þetta er mikið á­byrgðar­hlut­verk. Lúxus er ekki sjálf­gefinn þannig að fá að vernda skrímsli sem gefur fólki lúxus - ég tek því al­var­lega,“ segir Anna Þóra í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Ég lít á mig sjálfa sem al­gera lúxus­manneskju,“ heldur hún á­fram og játar að henni þyki ekki leiðin­legt að dekra að­eins við sig á góðum stundum. „Og alls ekki leiðin­legra að fá að dekra við aðra. Það er eigin­lega skemmti­legra. Við skrímslið erum eins að því leyti... ég er eigin­lega al­gjört skrímsli.“