Í kvöld verður nýr 15 þúsund manna þjóðarleikvangur í Lúxemborg opnaður með pompi og prakt. Aðeins boðsgestir verða viðstaddir athöfnina og má þar nefna borgarstjóra Lúxemborgar Lydie Polfer, stórhertogann og stórhertogaynjuna af Lúxemborg og forsætisráðherra, auk annarra fyrirmenna.

Íslenski tónlistarmaðurinn og leikarinn Pétur Óskar Sigurðsson, eða Oscar Leone eins og hann kallar sig á sviðinu, mun þenja raddböndin, en lögin Lion og Superstar urðu að smellum í landinu í sumar.Pétur flytur þrjú lög á hátíðinni en hann er fæddur í Lúxemborg árið 1984. Hann flutti til Íslands ásamt fjölskyldu sinni þegar hann var 10 ára gamall.

Hann var efnilegur fótboltamaður, stefndi á atvinnumennsku og lék með liðum á Íslandi, í Lúxemborg og síðast í Boston á skólastyrk, allt til ársins 2005 þegar hann meiddist og lagði skóna á hilluna.Pétur segir að völlurinn sé sannkallað augnayndi. Eitthvað sem KSÍ mætti alveg skoða en eins og flestir vita er verið að skoða og hugsa út í nýjan Laugardalsvöll.

„Ég hlakka til að reyna að blása smá eldmóði í fólkið sem mætir. Held að við höfum öll gott af því að snúa bökum saman eftir þetta ástand.“

Hljómsveitina sem er úti með honum skipa Jón Valur Guðmundsson, Hálfdán Árnason, Kristófer Nökkvi Sigurðsson, Rósa Björg Ómarsdóttir og Helgi Stefánsson. Pétur Óskar hyggst í framhaldinu dvelja erlendis næsta mánuðinn, halda tónleikaröð í Lúxemborg og fara í frí til Grikklands í tíu daga.

„Bandið er orðið þétt þannig að mögulega er þetta ekkert að fara að klikka.Þetta kemur svolítið snemma til manns. Það verður gaman að athuga hvort maður getur dansað á þessu sviði. Þetta er auðvitað eins og fótboltaferð að vera hérna með hljómsveitinni.

Ég er aðeins að uppskera og ætla að leyfa mér að lifa eins og rokkstjarna í mánuð og njóta. Svo sjáum við til. Það er ágætis áminning því ég er alltaf með þetta „en“ í hausnum. Að eitthvað sé flott, en… þetta sé vel gert, en… og svo framvegis. Nú ætla ég að vera í núinu og hugsa að þetta sé æðislegt og hafa gaman.“

Fréttablaðið/Getty