„Á tímabili vorum við hrædd um að hátíðin myndi syngja sitt síðasta sökum heimsfaraldurs og að LungA myndi láta 20 ár nægja, en það virðist ekki ætla að fara þannig, sem betur fer,“ segir Björt Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri LungA. Listahátíðin LungA á Seyðisfirði fór fyrst fram árið 2000 og var stefnt á stóra afmælishátíð á síðasta ári en þar setti heimsfaraldurinn strik í reikninginn og hátíðinni var aflýst.

„Það verður ekki formlegur afmælisfögnuður í ár þar sem undirbúningstímabilið var einfaldlega of stutt en þó verða hátíðlegir dagskrárliðir sem taka mið af því að verið sé að fagna síðustu tuttugu árum ásamt því að gefin verður út afmælisbók LungA,“ segir Björt. Á hátíðinni, sem fram fer dagana 15. til 17. júlí, koma fram stór nöfn í tónlistarheiminum, líkt og Gus Gus og Vök, ásamt því að haldnar verða listasmiðjur og boðið upp á fjöldann allan af listviðburðum.

„Hátíðin fer fram með breyttu sniði vegna faraldursins og sóttvarnareglna,“ segir Björt. „Helstu breytingarnar eru þær að hátíðin er styttri, tónleikarnir verða á öðrum stað en vanalega og að ekki verður boðið upp á fullt fæði og gistingu fyrir þá sem taka þátt í listasmiðjunum eins og venja er. Ég held að fólk sé ekki tilbúið í slíka nálægð og við erum ekki tilbúin að taka slíka ábyrgð,“ bætir hún við.

Seyðisfjörður hefur verið mikið í umræðunni undanfarið ár en aurskriður féllu á bæinn í desember á síðasta ári. Björt segist hafa fundið mikinn samhug til bæjarins og að greinilegt sé að mikill áhugi sé hjá landsmönnum að sækja bæinn heim.

„Við seldum hundruð miða áður en við tilkynntum dagskrá hátíðarinnar svo áhuginn er mikill,“ segir Björt. „Það er alveg frábært að upplifa þennan stuðning og þennan áhuga, það veitir okkur byr undir báða vængi til að halda áfram.“

Björt segist vongóð um að þegar hátíðin fari fram verði engar samkomutakmarkanir við lýði en samkvæmt upplýsingum á vef Stjórnarráðsins er stefnt að því að 75 prósent þjóðarinnar hafi fengið fyrri sprautu bólusetningar í síðari hluta júní og þá verði öllum takmörkunum innanlands aflétt.

„Við byrjum á því að selja nokkur hundruð miða og svo bætum við í en við förum ekki mjög langt yfir 1.000 miða,“ segir Björt en þegar mest hefur látið hafa verið um 3.000 manns á LungA. „Bæði faraldurinn og aurskriðurnar eru áskoranir sem hafa kennt okkur margt og það getur verið gott að endurhugsa og endurnýja hlutina reglulega. Við erum þakklát fyrir það hvernig LungA breytist og þróast með þessum áskorunum,“ segir Björt.