LungA er haldið með pompi og prakt í tuttugasta skipti í ár og hefur Seyðisfjörður fyllst, á síðustu dögum, af ungu listafólki tilbúnu til að skapa eitthvað nýtt. „Þetta gengur bara alveg ótrúlega vel, við erum með mjög þétta dagskrá fyrstu dagana og allir viðburðir hafa verið alveg pakkaðir,“ segir Þórhildur Tinna Sigurðardóttir, kölluð Tinna, viðburða- og sýningarstjóri LungA í ár.

Ákafi og rólegheit

Tinna segir hátíðina vera einstaka á þann hátt að hún sitji eftir í fólki. „Ég held að fólk átti sig ekki á því sem þau taka með sér eftir hátíðina, þetta er svona laumufarþegi sem læðist upp að manni kannski, tveim, þrem mánuðum eftir á.“

Hún segir upplifunina vera blöndu af ákafa og rólegheitum þar sem fólk vinni mikið á stuttum tíma og læri á sjálfa sig í leiðinni. „Þetta er svona sjálfsrýni sem læðist upp að manni, það eru allir stöðugt að uppgötva eigin hæfileika og koma sjálfum sér á óvart.“

Nýtt tónleikasvæði er smíðað ár hvert í Norðursíld af sjálfboðaliðum.
Mynd/Julie Rowland

Hátíð sem mótar sjálfið

„Mitt fyrsta Lunga var 2015 þá var ég sjálfboðaliði.“ Tinna hefur unnið með LungA teyminu á hverju sumri síðan. „Ég viðurkenni fúslega að hátíðin er stór hluti af því hver ég er í dag.“

Tinna hefur ekki setið auðum höndum við undirbúning hátíðarinnar í ár en hún lýsir síðustu tveim vikum sem stanslausri keyrslu. „Ég er bara búin að vakna klukkan átta og koma heim klukkan tvö um nótt alla daga og vera bara á hlaupum.“

Missir ekki af neinu

Afraksturinn hefur ekki látið á sér standa og Tinna hefur ekki misst af einum einasta viðburði í ár. „Ég er búin að ná að sjá alla listamennina mína, my babies,“ segir hún hlægjandi og bætir við að þeirra tími sé núna.

DJ Amadeus á leið á falsettu karíókí á kaffi Láru.

Fiðlurave og falsettu karaókí

Að sögn Tinnu mun engin hátíðargestur verða fyrir vonbrigðum í ár en fjölbreytt og opin dagskrá veitir fólki aðgang að áður óþekktum upplifunum. „Geigen var með fiðlurave í gær og svo var karaókí á mánudaginn en þá fengum við Sigrún Gyðu, óperusöngkonu einnig þekkta sem DJ Amadeus, til að slást í hóp með heimamönnunum, Snorra og Helga og stjórna falsettu popp partíi.“

Boðið er upp á átta fimm daga listasmiðjur og er þær ekki af verri endanum. „Þetta er svo sterkur hópur í ár“ segir Tinna aðspurð um uppáhaldssmiðjuna sína, „Ég er mjög spennt fyrir Birni Blumenstein sem vinnur með sínum hópi við að endurnýta bílhræ, svo verður geðveikt að sjá hvað kemur út úr tónlistasmiðjunni með Loga Pedro, Jófríði Ákadóttur og Unnsteini Manuel.“

Áhorfendur á uppistandi Stefáns Ingvars í Herðubreið.
Mynd/Julie Rowland

Tveggja daga tónlistarhátíð

„Það verður líka open studio um helgina þar sem verður hægt að skoða hvað listamenn hafa verið að bralla í vikunni.“ Um helgina verður síðan tónleikaveisla á hátíðarsvæðinu, sem byggt var af sjálfboðaliðum í ár, en þar troða stór nöfn upp á borð við GDRN, Hatari, Kælan Mikla og Mammút. Tinna mælir með að allir kíki á Seyðisfjörð og láti ekki slíka veislu fram hjá sér fara.

Ábreiðuhljómsveitin Bjartar Sveiflur komu fram á Lunga í fyrra.
Mynd/Julie Rowland