Alexander Lúkasjenkó sór embættiseið fyrir luktum dyrum í Hvíta-Rússlandi í sjötta sinn í gær. Engin tilkynning hafði borist um að Lúkasjenkó væri að fara sverja embættiseiðinn, en niðurstöðum forsetakosninganna hefur verið mótmælt harðlega í landinu og forsetinn sakaður um kosningasvindl. Þjóðverjar sendu frá sér tilkynningu þar sem segir að landið viðurkenni hann ekki sem forseta og að kosningarnar hafi hvorki verið frjálsar né sanngjarnar.

Þegar fréttir fóru að berast um embættiseið Lúkasjenkós flykktist fólk út á götur landsins að mótmæla. Tugir voru handteknir og beitti lögreglan vatnsbyssum og táragasi til að sundra mótmælendum. Óeirðalögreglan gekk vasklega fram og fjölmörg myndbönd á Twitter sýna lögregluna ganga harðlega fram og skeyta engu hvort þar færu unglingar, karlmenn eða konur. Stjórnarandstöðuleiðtoginn Svetlana Tikhanovskaya kallaði embættiseiðinn farsa í myndbandi sem hún sendi frá sér.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur lofað efnahagsstuðningi við vin sinn Lúkasjenkó.