Íslendingar taka þátt í sameiginlegum þvingunum Evrópusambandsins gegn stjórnvöldum í Hvíta-Rússlandi. Í því felst meðal annars að forseti landsins Alexander Lúkasjenkó megi ekki stíga fæti á íslenska grundu.

„Forseti Hvíta-Rússlands er einn þeirra sem landgöngubann nær til og því skal Ísland koma í veg fyrir að hann komi inn í landið eða hafi hér viðkomu,“ segir í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Önnur ríki sem taka þátt í þvingunaraðgerðunum eru EES-ríkin Noregur og Liechtenstein sem og þrjú umsóknarríki, Norður Makedónía, Svartfjallaland og Albanía. Samkvæmt utanríkisráðuneytinu felast aðgerðirnar í landgöngubanni tiltekinna einstaklinga, frystingu fjármuna, banni við vissum þjónustuviðskiptum, vopnasölubanni og sölubanni á búnaði til bælingar innanlands.

Evrópusambandið setti þvingan­irnar á í þremur þrepum fyrir jól og ná þær nú til alls 84 háttsettra einstaklinga í hvít-rússneska kerfinu. Meðal annars ráðherra, háttsettra löggæslumanna, herforingja, erindreka, hæstaréttardómara og hátt settra yfirmanna stofnana á borð við ríkissjónvarpið.

Forseti Hvíta-Rússlands er einn þeirra sem landgöngubann nær til og því skal Ísland koma í veg fyrir að hann komi inn í landið eða hafi hér viðkomu

Evrópusambandið hefur þegar lýst því yfir að Lúkasjenkó sé ekki réttkjörinn forseti Hvíta-Rússlands, en hann á að hafa sigrað með rúmlega 80 prósentum atkvæða í ágúst síðastliðnum. Framkvæmd kosninganna hefur verið harðlega gagnrýnd víða um heim og mikil mótmæli brutust út í kjölfar þeirra.

Flúði mótframbjóðandinn Svetlana Tsíkhanóskaja til Litháens en Lúkasjenkó var svarinn í embætti í kyrrþey. Hafa meira að segja Rússar, nánustu bandamenn Lúkasjenkós, viðurkennt að framkvæmd kosninganna hafi ekki verið eins og best verður á kosið.

„Rétt eins og mörg önnur lýðræðisríki bera íslensk stjórnvöld brigður á framkvæmd forsetakosninganna sem fram fóru í Hvíta-Rússlandi í ágúst síðastliðnum og telja þær hvorki hafa farið fram í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Hvíta-Rússlands né standast viðmið um lýðræði og réttarríki,“ segir í svari utanríkisráðuneytisins.

Einnig var vísað í sameiginlega yfirlýsingu utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna frá því í ágúst um að framganga stjórnvalda í Minsk yrði ekki látin óátalin. Sagði Guðlaugur Þór Þórðarson ráðherra að kúgunin og valdníðslan væru með ólíkindum.

Hundruð mótmælenda voru handtekin og látin dúsa þröngt. Lýstu margir þeirra pyndingum og ómannúðlegri meðferð af hálfu lögreglunnar og nokkrir létust. Meðal þeirra sem handteknir hafa verið eru um 50 blaðamenn sem voru ekki að taka þátt í mótmælunum