Lufthansa, næststærsta flugfélag Evrópu, hefur verið dregið inn í málaferli Isavia og þrotabús þýska flugfélagsins Air Berlin. Þótt Lufthansa tengist deilunni ekki með beinum hætti var vél félagsins kyrrsett á Keflavíkurflugvelli í nokkrar mínútur fyrir jól vegna hennar.

Málið á rætur að rekja til októbermánaðar ársins 2017 þegar vél Air Berlin var kyrrsett á Keflavíkurflugvelli í ellefu daga vegna vangoldinna gjalda við Isavia upp á 800 þúsund evrur, eða tæplega 123 milljónir króna.

Air Berlin var þá komið í greiðslustöðvun og Isavia lagði snjómoksturstækjum fyrir vélina til að hindra för hennar. Þetta sama ár varð Air Berlin gjaldþrota og hætti starfsemi.

Í júní árið 2021 stefndi skiptastjóri Air Berlin Isavia fyrir þýskum dómstólum vegna kyrrsetningarinnar. Það er, að greiðslan til að losa vélina væri riftanleg samkvæmt þýskum gjaldþrotalögum.

Samkvæmt Guðjóni Helgasyni, upplýsingafulltrúa Isavia, hefur Isavia hafnað þessu og málaferlin standa enn þá yfir ytra. Í vetur flæktist málið svo enn þá meira þegar Lufthansa var dregið inn í það.

„Þrotabú Air Berlin krefst þess fyrir þýskum dómstólum á grundvelli þýskra gjaldþrotalaga að frysta greiðslur til okkar frá öðru félagi,“ segir Guðjón.

Á grundvelli þess að Lufthansa er þýskt félag í viðskiptum við Isavia fékk þrotabúið samþykkt fyrir þýskum dómstól að greiðslur vegna gjalda á Keflavíkurflugvelli skyldu frystar. Það er 500 þúsund evrur, eða tæplega 77 milljónir króna.

Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi ISAVIA.

Vegna þessarar frystingar kyrrsetti Isavia vél Lufthansa á Keflavíkurflugvelli í desember síðastliðnum. Samkvæmt Guðjóni stóð sú kyrrsetning þó aðeins yfir í nokkrar mínútur og ekki kom til tafa á flugi. Lufthansa greiddi tryggingu strax til að losa vélina.

Nú hefur Isavia höfðað mál í héraðsdómi gegn Lufthansa til að fá kyrrsetninguna staðfesta.

„Við höfum átt í mjög uppbyggilegu samtali við Lufthansa í öllu þessu ferli. Þarna er Lufthansa að dragast inn í mál fullkomlega að ósekju,“ segir Guðjón.

Að sögn Guðjóns er mikilvægt að halda því til haga að Lufthansa hafi alltaf staðið í skilum við Isavia. Isavia hafi neyðst til að beita þessum aðferðum vegna aðgerða þrotabús Air Berlin.

Segist Guðjón gera ráð fyrir því að Lufthansa taki til varna í Þýskalandi gegn þrotabúinu vegna frystingarinnar á greiðslum til Isavia.