Luigi di Maio, hinn 33 ára utanríkisráðherra Ítalíu, hefur látið af formennsku í Fimmstjörnuhreyfingunni.

Hreyfingin sem er lýðhygli- og andkerfisflokkur, fékk 32,7 prósent atkvæða og 227 þingmenn í kosningunum árið 2018. Mjög hefur dregið úr fylgi flokksins í skoðanakönnunum síðustu mánuði og mælist flokkurinn nú með minna en 16 prósenta fylgi.

Allt hefur logað stafna í milli í flokknum síðustu misseri. Alls hafa 27 þingmenn ýmist hætt af sjálfsdáðum eða verið hraktir af þingi á kjörtímabilinu. Fjárhagur flokksins hefur einnig reynst erfiður.

Fimmstjörnuhreyfingin og Lýðræðisflokkurinn mynda nú saman ríkisstjórn á Ítalíu.