Frágangur eftir Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum gengur vel. Þrátt fyrir að kömrum hafi fjölgað á svæðinu í ár varð ungur starfsmaður á golfvellinum fyrir þeirri leiðinlegu lífreynslu að taka utan um mannaskít með berum höndum þegar hann ætlaði að fjarlægja það sem honum sýndist vera grjóthnullungur í sandinum.  

Starfsmaðurinn, Nökkvi Snær Óðinsson, greindi frá atvikinu á Twitter og biður aðilan sem sinnti þörfum sínum í sandinn að láta sig vita næst svo hann geti þá verið í hönskum.

Það er engin tilviljun að Nökkvi geri ráð fyrir því að atvikið geti endurtekið sig þar sem starfsmenn vallarins hafa fundið mannaskít á golfvellinum ár eftir ár í vikunni eftir þjóðhátíð.

Nökkvi segir í samtali við Fréttablaðið að yfirleitt finnist mannaskítur í holunum á vellinum en hann hafi ekki búist við að finna slíkt í sandgryfjunum. 

Annar starfsmaður segir að um sé að ræða ákveðna tómstundariðju ákveðinna þjóðhátíðagesta. Venjan sé að láta yngstu starfmenn golfvallarins þrífa upp skítinn [Innskot blaðamanns: í bókstaflegri merkingu] eftir þjóðhátíð.

„Alltaf þegar við mætum í vinnuna eftir þjóðhátíð þá er búið að kúka í holur. Þetta er eitthvað hobbý hjá þeim sem koma hérna,“ segir Ásgeir Elíasson, starfsmaður á golfvellinum í Vestmannaeyjum.

„Ég hef sloppið við að þurfa að sinna þessu verkefni en hef verið með öðrum sem hafa þurft að gera það,“ segir Nökkvi um þetta óhefðbunda verkefni starfsmannanna.

Trúði ekki að sögurnar væru sannar

Dóra Björk Gunnarsdóttir, formaður þjóhátíðarnefndar, hélt að sögusagnir um að menn hafi haft hægðir á golfvellinum væru ósannar og furðar sig á að gestir hegði sér á þennan hátt.

„Ég hef heyrt af þessu í mörg ár en hélt að þetta væru bara einhverjar sögusagnir og ég bara trúði því ekki að nokkur maður nennti að standa í þessu, það er fullt af klósettum á svæðinu.“

Sérstökum kvennaklósettum fjölgaði í ár og hefur eftirspurn eftir þeim verið meiri og segir Dóra að karlkyns gestirnir séu duglegri að kasta af sér vatni í grasið í brekkunni. Einnig sé eitthvað um að kvartað sé undan að migið sé utan í tjöld á tjaldsvæðinu. 

„Við fjölguðum núna afgirtum kvennaklósettum þar sem eftirspurnin eftir kvennaklósettum er klárlega alltaf meiri en karla. Þeir eru duglegri að fara upp í brekku strákarnir.“

Aðspurð um hvort svokallaður örnamaður hafi verið settur upp á svæðinu og átti blaðamaður þar við sérstakt skilti sem hefur verið sett upp víða um land, sem bannar fólki að létta á sér á tilteknu landi, segir hún að það hafi ekki verið gert „en frábær hugmynd,“ segir hún létt í bragði og bætir við að það verði kannski farið í slíkar aðgerðir fyrir næstu hátíð.

Umgengni annars góð

Þar fyrir utan segir hún umgengi þjóðhátíðagesta hafa verið góða í ár og að frágangur gangi vel. Dalurinn sé nokkurn veginn kominn í samt lag en verið sé að leggja lokahönd á að taka niður mannvirkin sem voru sett upp fyrir hátíðina.

„Umgengni gesta að okkar mati var betri núna heldur en oft áður, við erum búin að fjölga ruslunum og dósakörunum og höldum að það hafi skilað árangri.“

Annars er Dóra Björk ánægð með hátíðina í heild sinni og segist skynja meiri ró yfir bænum þegar hátíðin sé yfirstaðin, þá fari margir eyjamenn í sumarfrí en annars gangi allt sinn vanagang.