Losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda jókst um 2,2 prósent milli áranna 2016 og 2017. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda.

Umhverfisstofnun þarf að gera skil á losunarbókhaldi Íslands vegna loftlagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Skýrslan tekur til tímabils frá 1990 til 2017.

Losun 2005-2017 sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda (kt CO2-íg).
Skjáskot/ Umhverfisstofnun

Frá árinu 2005 hefur losun á beinni ábyrgð íslenska ríkisins dregist saman um 5,4 prósent. Hins vegar hefur losunin verið nokkuð stöðug frá árinu 2012, þrátt fyrir aðgerðir til að stemma stigu við losunina. Er ástæðan fyrir því að sögð vera aukning í komu ferðamanna til landsins og aukning í almennri neyslu hér á landi.

Í skýrslunni kemur fram að vegasamgöngur sé stærsti losunarvaldurinn, eða um 34 prósent. Þar á eftir fylgir olíunotkun fiskiskipa, 18 prósent, og iðragerjun úr landbúnaðarskepnum, 10 prósent. „Fyrir utan fyrrnefnda losun á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda tekur skýrslan einnig á losun frá stóriðju undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS). Árið 2017 féllu 39% af heildarlosun Íslands undir ETS og var þar 2,8% aukning í losun innan kerfisins milli 2016 og 2017,“ segir í skýrslunni.

Aukningin á milli þessara tveggja ára, án landnotkunar, er sögð vera aukin losun frá fólksbílum, málmframleiðslu, kælimiðlum og frá nytjajarðvegi. „Þrátt fyrir að heildarlosunin hafi aukist milli ára, hefur losun dregist saman frá ákveðnum uppsprettum. Þar má nefna sem dæmi losun frá framleiðsluiðnaði (m.a. fiskimjölsverksmiðjur) sem dróst saman um 9 prósent og losun frá urðunarstöðum sem dróst saman um 3 prósent.“