Losun gróður­húsa­loft­tegunda á Ís­landi dróst saman um tvö prósent á milli áranna 2018 og 2019. Ekki hefur mælst meiri sam­dráttur síðan árið 2012. Guð­mundur Ingi Guð­brands­son um­hverfis­ráð­herra segir að um afar á­nægju­legar fréttir sé að ræða. „Þetta bendir til þess að þær að­gerðir sem gripið hefur verið til hér á landi á undan­förnum árum séu farnar að sýna mælan­legan sam­drátt,“ segir hann.

Sam­drátt í losun má helst rekja til vega­sam­gangna, urðunar úr­gangs, fiski­skipa og land­búnaðar. Á milli ára dróst losun frá vega­sam­göngum saman um tvö prósent og er það í fyrsta skipti sem sjá má sam­drátt í þeim flokki síðan árið 2014.

Guð­mundur segir sam­drátt í vega­sam­göngum að ein­hverju leyti mega rekja til sam­dráttar í ferða­þjónustu en að mikil­vægt sé að minna á að um tölur frá árinu 2019 sé að ræða, sam­drátturinn tengist því ekki kóróna­veirufar­aldrinum.

Hins vegar sé um að ræða sam­drátt í losun vegna aukinnar á­herslu á fjöl­breyttari ferða­máta og fjölgun um­hverfis­vænni bíla. „Mér sýnist á öllu að 2018 sé árið þar sem toppnum varðandi losun frá vega­sam­göngum var náð og nú sé leiðin niður á við. Það er mjög mikil­vægt vegna þess að vega­sam­göngur eru stærsti losunar­þátturinn í beinni á­byrgð Ís­lands og hefur fram til þessa verið að aukast,“ segir Guð­mundur.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra.
Fréttablaðið/Anton Brink

Mark­miðið að ná 29 prósenta sam­drætti í losun árið 2030

Losun á beinni á­byrgð Ís­lands er sú losun sem ís­lensk stjórn­völd munu þurfa að gera upp gagn­vart Evrópu­sam­bandinu bæði vegna skuld­bindinga er varða Kýótó­bókunina og Parísar­sam­komu­lagið. Mark­mið Ís­lands er að ná 29 prósenta sam­drætti í losun árið 2030, miðað við árið 2005. Þetta mark­mið hefur þó verið hækkað frá út­gáfu að­gerða­á­ætlunar stjórn­valda.

Losunin hafði dregist saman um átta prósent árið 2019, miðað við 2005, og segist Guð­mundur bjart­sýnn að mark­miðum verði náð.

„Við metum það svo að við munum ná mark­miði okkar sam­kvæmt Parísar­sam­komu­laginu og það byggjum við á að­gerða­á­ætlun frá því í fyrra en við erum enn­þá að út­færa á­kveðnar að­gerðir sem munu skila okkur árangri,“ segir hann.

„Nú erum við komin með stjórn­tækin til þess að gera þetta en svo getur þurft að herða ein­hvers staðar. Auð­vitað eigum við alltaf að vera í hópi þeirra þjóða sem setja sér metnaðar­fyllstu mark­miðin og grípa til hertra að­gerða ef þess er þörf,“ segir Guð­mundur og að í þeim efnum hafi strax verið stigið stórt skref en sam­eigin­legt mark­mið Ís­lands, Noregs og ESB um sam­drátt í losun fyrir árið 2030 hefur verið hækkað um fimm­tán prósent.

Losun frá fiski­skipum dróst saman um 5,4 prósent og frá urðun úr­gangs dróst hún saman um 16 prósent. Guð­mundur segir að varðandi urðun úr­gangs sé um að ræða bein á­hrif þess að flokka rusl og breytinga á með­höndlun úr­gangs.