Björgvin Unnar Helguson, 4 ára strákur sem fæddist með hjartagalla og þindarslit, losnaði við barkatúpuna sína í fyrsta sinn frá fæðingu í gær. Hann fjarlægði túpuna sjálfur og fékk plástur í staðinn. Björgvin Unnar sefur vel en hann fór í aðgerð í gær þar sem lyfjabrunnur hans var fjarlægður.

„Þetta er risa skref. Hann er búin að vera þetta í fjögur ár en átti upphaflega að vera með þetta í 6 til 12 mánuði en það dróst aðeins. Þetta var hans eina lífæð á tímabili,“ segir Jónína Sigríður Grímsdóttir í samtali við Fréttablaðið.

„Hann þarf að læra að hósta upp á nýtt meðan gatið er gróa,“ segir Jónína en læknarnir telja að gatið muni gróa innan þriggja vikna og segist Jónína sjá strax mun frá því í gær.

Björgvin Unnar býr í Hafnarfirði ásamt mæðrum sínum Jónínu Sigríði Grímsdóttur og Helgu Kristrúnu Unnarsdóttur. Þá sé hugsanlega ekki þörf fyrir starfsfólk á heimili þeirra í náinni framtíð en aðstoðarfólk hefur búið heima hjá fjölskyldunni frá því að Björgvin Unnar komst heim af spítalanum.

Mikið var fjallað um mál Björgvins Unnars í fjölmiðlum fyrir þremur árum en hann bjó á Landspítalanum í nítján mánuði frá fæðingu. Hann fór í sína fyrstu aðgerð á erlendu sjúkrahúsi aðeins vikugamall hefur síðan þurft að fara í fleiri aðgerðir erlendis.

„Við erum mjög spennt fyrir því að vera bara þrjú ein,“ segir Jónína.