Annar þeirra manna sem handtekinn var í aðgerðum lögreglu og sérsveitar ríkislögreglustjóra, vegna gruns um að leggja á ráðin um hryðjuverk, losnaði úr gæsluvarðhaldi einum sólarhring áður en hann var handtekinn síðastliðinn þriðjudag.

Greint var frá þessu í hádegisfréttum RÚV.

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að mennirnir hafi meðal annars beint sjónum sínum að Alþingi og árshátíð lögreglumanna sem til stendur að halda í næstu viku.

Í frétt RÚV kom fram að mennirnir hafi rætt um að fremja fjöldamorð á umræddri árshátíð sem fyrirhuguð er þann 1. október næstkomandi. Þetta leiði síma- og tölvugögn meðal annars í ljós og þar komi fram orð eins og fjöldamorð, lögreglumenn og Alþingi.

Maðurinn sem hafði nýverið losnað úr gæsluvarðhaldi var grunaður um vopnalagabrot og var hann úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald í gær, samkvæmt frétt RÚV. Hinn var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald.