Það er búið að vera þröngt um okkar nemendur í rafvirkjun og húsasmíði. Það á að byggja við skólann og er verið að vinna í því en þetta brúar bilið þangað til,“ segir Elvar Jónsson, aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskólans í Breiðholti, en skólinn hefur fengið samþykkt að koma fyrir tólf samliggjandi gámum sem eiga að nýtast sem tvær kennslustofur, ásamt tengigangi að vesturgafli skólans.

„Þetta er bráðsniðug lausn. Við fórum að skoða þennan möguleika seint í vor og svo aftur í haust, hvort við gætum fengið bráðabirgðahúsnæði til að taka á móti öllum þessum nemendum sem sækja í okkar verklega nám, sérstaklega rafvirkjun. Þessar kennslustofur eru hugsaðar sem kennslustofur fyrir rafvirkjun,“ segir Elvar.

Hann segir að lausnin hingað til hafi verið að notast við matsalinn, enda er hann ekki opinn vegna COVID-faraldursins. „Við höfum ekki haft mötuneytið í gangi vegna COVID, þannig að í ágúst var byrjað að hafa matsalinn sem þrjár opnar kennslustofur. Það hefur bjargað okkur fram að þessu. En okkur vantaði lausn til lengri tíma og lendingin var þessar gámaeiningar enda vonumst við til að geta hleypt nemendum aftur í matsalinn sinn þegar léttir á ástandinu.“

Hann segir að kröfurnar séu að taka við sem flestum nemendum, sérstaklega í verknámi og því renni FB blóðið til skyldunnar með því að hugsa aðeins út fyrir kassann á þessum skrýtnu tímum. „Þetta er allt gert í samráði við menntamálaráðuneytið og yfirvöld og við erum að koma til móts við kröfurnar, að taka á móti sem allra flestum nemendum, sérstaklega í verknámi. Við höfum gert það eftir fremsta megni,“ segir Elvar.

Hann bætir við að þetta kennsluár hafi verið einstaklega krefjandi, og hrósar bæði kennurum og nemendum fyrir hvernig hefur tekist til. „Það er alveg ótrúlegt og magnað afrek segi ég, hvernig kennarar hafa náð að útfæra þetta þannig að þetta er að ganga ágætlega upp þrátt fyrir þessar mjög svo miklu skorður sem sóttvarnareglur setja okkur til að taka inn hópa. Við höfum gengið langt hér í FB í sóttvörnum og stundum lengra en ítrustu reglur segja til um til að verja okkar fólk og nemendur.“