Stjórnvöld í Japan búa sig nú undir að hleypa geislavirku vatni frá kjarnorkuverinu í Fukushima út í sjóinn. Losun vatnsins, sem hefur verið geymt tímabundið í tönkum, hefur lengi verið áhyggjuefni eftir að kjarnorkuverið eyðilagðist í kjölfar náttúruhamfara árið 2011.

Umræður hafa staðið yfir lengi og hefur losun vatnsins í sjóinn meðal annars verið mótmælt af fiskimönnum. Yoshihide Suga, forsætisráðherra Japan, sagði á miðvikudag að ekki væri hægt að bíða lengur og búist er við að formleg ákvörðun um losun vatnsins verði tekin á næstu dögum.

Fari ríkisstjórnin þá leið verður vatninu hleypt út hægt og bítandi á næstu áratugum. Þá verður það þynnt til að gæta ítrustu varúðar í samræmi við umhverfislög landsins.