„Ég gæti ekki verið glaðari, það er eiginlega ekki hægt að segja annað,“ segir Margrét Sigríður Guðmundsdóttir sem fyrir tveimur árum var flutt á hjúkrunarheimili áratugum of snemma vegna úrræðaleysis ríkis og sveitarfélaga.
Margrét Sigríður hefur glímt við MS-sjúkdóminn í níu ár og þarf mikla aðhlynningu. Hún er með lögheimili í Kópavogi en bærinn hefur ekki getað útvegað viðeigandi búsetuúrræði og vísar ábyrgðinni til ríkisins. Ríkið vísar hins vegar ábyrgðinni til sveitarfélagsins.
Fyrr í vetur sagði forstjóri hjúkrunarheimilisins upp samningi við Margréti Sigríði og sagði þjónustuna við hana ekki fara saman við þjónustu aldraðra.
Margrét Sigríður átti að vera flutt út 1. desember síðastliðinn en fékk að dvelja lengur þar sem Kópavogsbær gat ekki komið til móts við hana og hefur í raun ekki enn gert.
Að sögn Margrétar Sigríðar setti MS-félagið sig í samband við Öryrkjabandalagið í vetur og þá fyrst hafi hjólin farið að snúast. Á mánudag skrifaði Öryrkjabandalagið undir kaupsamning á íbúð í Kópavogi fyrir Margréti Sigríði sem hún fær afhenta í mars. „Kópavogsbær sá sér ekki fært að útvega mér íbúð. Auðvitað gátu þeir alveg gert þetta sama og íbúðin er í þeirra sveitarfélagi. Þeir báru bara fyrir sig að þeir ættu engar lausar íbúðir sem hentuðu mér,“ segir Margrét Sigríður og bætir við að bærinn hefði getað leyst þetta með sama hætti og Öryrkjabandalagið gerði.
„Mér finnst þetta svo stórkostlegt að þeir skyldu gera þetta fyrir mig. Ég eiginlega á varla til orð,“ segir Margrét Sigríður. Hún hefur fengið samþykktan NPA-samning og stendur nú í ströngu við að taka væntanlegt framtíðar starfsfólk í viðtöl.
Til viðbótar við venjulegan NPA-samning fór hún fram á viðbót frá Kópavogsbæ. NPA-samningur gerir ráð fyrir einum starfsmanni allan sólarhringinn en í tilfelli Margrétar Sigríðar þarf hún tvo starfsmenn nokkrum sinnum yfir sólarhringinn öryggisins vegna. „Því var synjað hjá Kópavogsbæ,“ segir hún en bætir við að það standi í lögum að þegar verið sé að sinna einstaklingi þar sem nota þarf lyftara og segl sem hjálparbúnað þurfi að vera tveir starfsmenn til að tryggja öryggi einstaklingsins og starfsmanna.
Margrét Sigríður segist ekki vita hvernig Kópavogsbær komi til með að leysa málið enda dragi þeir sífellt lappirnar í máli hennar. Hún segist þó vona að málið leysist og lítur björtum augum á framtíðina.
„Ég þori samt ekki alveg að hleypa fiðrildunum af stað strax í maganum. Maður er aðeins að reyna að halda sér á jörðinni,“ segir Margrét Sigríður sem sér flutninginn af hjúkrunarheimilinu og um leið frelsið í hillingum.