Ekki liggur fyrir hversu langan tíma viðgerð á Vestmannaeyjastreng 3 mun taka, en strengurinn bilaði á mánudaginn. Varasæstrengur mun sjá Vestmannaeyjum fyrir rafmagni, til að samfélagið gangi sem skyldi á meðan viðgerð stendur.

Bilanagreining á Vestmannaeyjastreng 3 leiddi í ljós að bilunin er ekki á landi, heldur í sjó um einum kílómetra frá Landeyjasandi. Í tilkynningu frá Landsneti segi að fram undan sé umfangsmikil, flókin og tímafrek viðgerð.

Viðbragðsáætlun hefur verið virkjuð og undirbúningur fyrir viðgerð er hafinn. Ekki er vitað hvað olli biluninni, en sérhæft viðgerðaskip ásamt sérfræðingum hefur verið kallað til landsins.

Á meðan strengurinn er í viðgerð mun Vestmannaeyjastrengur 1, ásamt varaafli, sjá Vestmannaeyjum fyrir rafmagni. Til öryggis mun Landsnet flytja aukavaraaflsvélar til Vestmannaeyja til að tryggja að til staðar sé aukið rafmagn ef eitthvað skyldi koma upp á.

Strengurinn var lagður árið 2013, framleiddur í verksmiðju ABB í Svíþjóð og prófaður samkvæmt stífustu kröfum að framleiðslu lokinni í verksmiðju, meðal annars með háspennuprófi.