Lögregla lokaði í kvöld nokkrum svæðum fyrir utan bandaríska þinghúsið í Washington D.C. eftir að til átaka kom á milli stuðningsmanna Donalds Trump Bandaríkjaforseta og lögreglu.

Lögregla hafði komið upp girðingum fyrir utan bygginguna sem stuðningsmenn forsetans reyndu að brjóta sér leið í gegnum. Var bókasafn þingsins, sem er eitt það stærsta í heimi, rýmt en bókasafnið er rétt hjá aðalbyggingu þingsins.

Mótmæla úrslitum í Arizona

Fundur stendur nú yfir á Bandaríkjaþingi þar sem kjör Joe Bidens í embætti Bandaríkjaforseta verður staðfest. Búist er við langri nótt og eru fulltrúar Repúblikana þegar búnir að mótmæla úrslitunum í Arizona. Gera má ráð fyrir því að þeir muni mótmæla niðurstöðum kosninganna í fleiri ríkjum þar sem mjótt var á munum.

Donald Trump ávarpaði stuðningsmenn sína í dag þar sem hann sagðist ekki ætla að gefast upp og játa ósigur í kosningunum í nóvember. „Við munum aldrei gefast upp og aldrei játa okkur sigraða. Þú gefst ekki upp þegar þjófnaður er annars vegar,“ sagði hann meðal annars fyrir framan nokkur hundruð stuðningsmenn sína. Að ávarpinu loknu héldu stuðningsmenn hans í átt að þinghúsinu þar sem þeir mættu lögreglu.

Gagnrýndi Trump harðlega

Í frétt NBC News er greint frá því að Trump hafi sett þrýsting á Mike Pence, varaforseta sinn, um að staðfesta ekki úrslit kosninganna. Pence er sagður hafa neitað þessari beiðni Bandaríkjaforseta á þeim forsendum að hann hefði ekki vald til þess.

Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í Öldungadeild þingsins, gagnrýndi tilraunir Trumps til að fá úrslitum kosninganna hnekkt harðlega í ræðu á þinginu í kvöld. Hann sagði að ekki neitt benti til þess að um kosningasvindl hefði verið að ræða og ekki hefði verið óvenjulega mjótt á mununum í kosningunum. Benti hann á að enn mjórra hefði verið á mununum í kosningunum 1976, 2000 og 2004.

Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í Öldungadeildinni, vandaði Trump ekki kveðjurnar í ræðu sinni.
Mynd/Getty Images

Gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana

Svo virðist vera sem Trump verði ekki komið þegjandi og hljóðalaust úr Hvíta húsinu og samkvæmt heimildum NBC News hefur sú hugmynd verið viðruð af bandamönnum Trumps að beita hernum til að koma í veg fyrir innsetningu Joe Biden í embætti forseta þann 20. janúar næstkomandi. Í umfjölluninni er tekið fram að þó að þessi umræða „sé ekki alvarleg“ að svo stöddu sé útilokað að Trump beiti öllum tiltækum ráðum.

„Hann stoppar ekki,“ segir heimildarmaður úr röðum Repúblikana sem hefur náin tengsl við Hvíta húsið í samtali við NBC News. Hann segir að baráttu hans ljúki ekki í kvöld, sama hvernig fer á þinginu.