Fjöldi ríkja um allan heim hafa lokað á flug til og frá sunnanverðri Afríku vegna útbreiðslu hins nýja Ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar. Afbrigðið hefur vakið ugg veirusérfræðinga víða um heim vegna fjölda stökkbreytinga sem kunna að gera það enn meira smitandi en Delta-afbrigðið sem nú er algengasta afbrigði Covid-19.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lýst yfir áhyggjum af Ómíkron-afbrigðinu og Bandaríkin, Bretland, Kanada og Evrópusambandið eru meðal þeirra sem hafa sett takmarkanir á flug frá sunnanverðri Afríku. Í Bretlandi er komufarþegum frá Suður-Afríku, Botsvana, Namibíu, Simbabve, Lesótó og Esvatíní gert að dvelja í tíu daga sóttkví við komu til landsins.

Joe Phaahla, heilbrigðisráðherra Suður-Afríku, sagði vinnubrögð landsins í sóttvarnamálum hafa verið gegnsæ og taldi ferðabönnin stríða gegn viðmiðum og venjum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Óvíst er þó hvort takast muni að hefta útbreiðslu nýja afbrigðisins með ferðahömlum. Ein sýking Ómíkron-afbrigðisins hefur þegar greinst í Belgíu. Samkvæmt frétt belgíska fjölmiðilsins RTBF var þar um að ræða unga konu sem hafði ferðast til Egyptalands í gegnum Tyrkland og hafði ekki farið til suðurhluta Afríku.