„Ég man eftir því að við fórum í einhverja sveitasjoppu og þú labbar inn, segir hátt og snjallt við eldri mann í afgreiðslunni „Seljið þið hasspípur?““ segir bassaleikarinn Jakob Magnússon sem er gestur Bubba Morthens í fjórða þætti hlaðvarpsins Sögur af plötum. Í þættinum er farið yfir sögu hljómsveitarinnar Das Kapital og plötunnar Lili Marlene sem gefin var út árið 1984.

„Mér finnst hún vera mín besta rokkplata. Enn þá. Ég á kannski eftir að gefa út eina sem er betri,“ segir Bubbi sem bætir síðan við að það hafi nánast verið ómögulegt að vinna með sér á þessum tíma. Bubbi og Jakob eru sammála um að hljómsveitin hafi aldrei slegið í gegn. „Við vorum í rauninni bara óvinsælir. Við reyndum allt,“ segir Jakob og Bubbi bætir við að fólk hafi beinlínis verið hrætt við þá. „En einhverra hluta vegna var þetta besta rokkband sem ég hef verið í.“

Í þættinum fara félagarnir meðal annars yfir sögurnar af því hvernig þeir kynntust, skrautlegum uppákomum í upptökuferlinu og mikilli eiturlyfjaneyslu sveitarinnar. „Við vorum búnir að reykja af okkur hausinn og sömdum síðan lagið Svartur gítar,“ segir Jakob og lýsir því hvernig þeir fóru í kjölfarið á teiknimyndina Skógarlíf í þrjúbíó. „Ég var næstum því farinn að gráta, þetta var svo falleg mynd. Samt var maður þarna í leðurjakkanum sko,“ segir Jakob og hlær.

Bubbi lýsir svo skrautlegri ferð þeirra félaga í berjamó eftir að myndin var búin. „Við erum með einhvern húmor og vissum auðvitað ekkert að það yrði svona, en við gáfum lögregluvaktinni ber með rjóma … þeir hafa hugsað með sér: „Já, þessir leðurklæddu gaukar eru bara allt í lagi!“ Heldur betur ekki maður! Vaktin hún varð óstarfhæf – þeir urðu allir óstarfhæfir!“ segir Bubbi og bætir við að þeir félagar hafi sloppið við afleiðingar þótt þurft hafi að kalla til aukavaktir frá Húsavík og Akureyri.