Páll Win­kel, fangelsis­mála­stjóri, segir hag­ræðingu vera aðalá­stæðan fyrir lokun fangelsisins á Akur­eyri en með lokuninni verður hægt að fjölga fangaplássum í stóru fangelsunum, draga úr fyrningum brota og minnka bið­tíma eftir af­plánun.

Um þessar mundir eru rúmlega 600 manns á boðunar­lista Fangelsis­mála­stofnunar. Bið eftir afplánun á Íslandi getur tekið allt að fimm ár.

„Við erum með sex stöðu­gildi í fangelsinu á Akur­eyri sem verða lögð niður. Þar er pláss 8 til 10 fanga. Við getum með því að ráða inn tvo fanga­verði á Litla Hraun opnað annað hús þar sem við getum verið með 7 fanga í. Þá standa eftir 4 stöðu­gildi sem við munum þá nota til að standa straum af kostnaði við fjölgun fanga í stóru fangelsunum,“ segir Páll. „Þannig getum við fjölgað tölu­vert og nýtt þau fangelsi sem standa full­mönnuð starfs­mönnum en í hálfri nýtingu.“

Í svari dóms­mála­ráð­herra við fyrir­spurn frá Ómari Ás­birni Óskars­syni, varaþingmanni Viðreisnar, um bið­tíma eftir af­plánun kom í ljós að meðal­bið­tími hefur aukist úr 7,4 mánuðum í 19,6 mánuði á tímabilinu 2009 til 2019.

„Okkar verk­efni er að gera allt sem við getum er til þess að draga úr fyrningum og minnka bið­tíma. Opin­bert fé er tak­markað og við gerum okkur grein fyrir því og vinnum í sam­ræmi við það,“ segir Páll.

Fangelsið á Akureyri er í sama húsnæði og lögreglan á Norðurlandi.

75 prósent fanga í fangelsinu ekki að afplána í heimabyggð

Á­kvörðun Fangelsis­mála­stofnunnar um að loka fangelsinu á Akur­eyri hefur verið harð­lega gagn­rýnd af bæði Akur­eyrar­bæ og þing­mönnum kjör­dæmisins. Í Frétta­blaðinu í gær, sagði Stein­grímur J. Sig­fús­son, for­seti Al­þingis, og þing­maður Vinstri grænna í Norð­austur­kjör­dæmi, að það væri á­kveðið sjónar­mið að þeir sem þurfa sitja sína refsingu geti gert það eins ná­lægt heima­slóðum sínum og hægt er.

Hins vegar eru 75 prósent þeirra fanga sem voru í fangelsinu á Akur­eyri frá höfuð­borgar­svæðinu og þar af leiðandi ekki að af­plána í sinni í heima­byggð. Páll segist hafa heyrt þessi rök.

„Við höfum jafnan heyrt að fólk eigi að geta af­plánað í heima­héraði en það er nú þannig að það hefur aldrei verið fangelsi á Austur­landi, aldrei á Vest­fjörðum og aldrei lokað fangelsi á Vestur­landi. Stærri hluti þeirra fanga sem af­plána á Akur­eyri eru frá Reykja­vík,“ segir Páll.

Fangelsið staðið autt í næstum tvo mánuði

Bæjar­stjórn Akur­eyrar mót­mælti einnig á­kvörðuninni og sagði meðal annars í yfir­lýsingu sinni að með þessu væri lög­gæsla á stóru svæði landsins sett í „al­gjört upp­nám.“

„Það er mjög at­hyglis­vert að heyra að við séum með þessari á­kvörðun að setja lög­gæslu á Norð­austur­landi í upp­nám. Mönnunin í fangelsinu er þannig að á kvöldin og næturnar er einn fanga­vörður bæði með fangelsið, þar sem eru 8 til 10 fangar og fanga­geymslu lög­reglu. Þegar búið er að loka fangelsinu þá skil ég ekki alveg af hverju það eiga að vera tveir lög­reglu­menn yfir lokuðu fangelsi og fanga­geymslu sem er notuð annað slagið,“ segir Páll.

Enginn fangi hefur verið í fangelsinu síðan 15. maí og hefur því fangelsið staðið autt í næstum því tvo mánuði. Starfs­menn fangelsisins hafa verið á fullum launum á meðan en Páll segir þá hafa verið að taka út sín sumar­frí að hluta.

„Við réðum ekki sumar­af­leysinga­fólk þarna og erum búin að vera í ströngu að­haldi núna í langan tíma. Við þurftum að fækka um þrjá sér­fræðinga á aðal­skrif­stofunni einn fé­lags­ráð­gjafi, einn sál­fræðing og einn lög­fræðing. Það er bara ein­fald­lega okkar verk­efni. Ein af megin­s­kyldum for­stöðu­manna hjá ríkinu er að vera innan fjár­heimilda og við höfum þurft að grípa til af­gerandi ráð­stafanna til að ná því. Þetta er bara einn hluti af því.“

Sumir fangar hafa verið fluttir norður gegn vilja sínum

Honum þykir leitt að sjá eftir góðum sam­starfs­mönnum en kostnaðurinn við fjögur stöðu­gildi mun geta staðið straum af því að auka fanga­pláss þar sem hver og einn fangi kostar á­kveðna upp­hæð á dag.

Spurður um hvort þeir sem hafa verið í af­plánun fyrir norðan en eru frá höfuð­borgar­svæðinu hafa óskað eftir því að vera fluttir í bæinn, segir Páll að Fangelsis­mála­stofnun hefur þurft að flytja fanga norður gegn vilja sínum.

„Það er allur gangur á því. Suma þurfum við að flytja þangað gegn vilja þeirra. Aðrir sam­þykkja þetta. Ein­stakt að það sé óskað eftir því en það bara allur gangur á því,“ segir Páll. Að­spurður segir hann einnig að það sé minni þjónusta í boði í fangelsinu en í stóru fangelsunum. „Það er minni þjónusta. Það er lengri veg að fara þannig fé­lags­ráð­gjafar og sál­fræðingar for­gangs­raða í sinni þjónustu. Ég tel við getum veitt betri þjónustu í stóru fangelsunum með þessari breytingu.“