Bóka­búð og kaffi­hús Máls og menningar á Laugavegi hafa lokað tíma­bundið. Reksturinn hefur verið erfiður upp á síð­kastið eins og hjá mörgum verslunum landsins vegna kórónu­veirufar­aldursins. Lokun Laugavegar ofan í ástandið gerði svo illt verra og urðu eigendur verslunarinnar að loka henni, þó með von um að geta opnað aftur sem fyrst.

„Ég held ég hafi þagað of lengi. Ég er búin að reyna að vera þessi já­kvæða og halda mér til hlés. En það er stað­reynd að sölu­tölurnar okkar dansa alveg eftir lokunum gatna í bænum,“ segir Arn­dís Björg Sigur­geirs­dóttir, annar eig­andi Máls og menningar, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hún segir engan vafa á því að lokanir gatna og fram­kvæmdir í ná­grenninu hafi á­hrif á söluna. Til dæmis hafi hún borið sölu­tölur sumranna áður en tíma­bundnar göngu­götur fóru að skjóta upp kollinum í mið­bænum við sumur síðustu ára. Þar komi fram skýr munur.

Göngugötur skemmtileg tilhugsun

„Salan er búin að dragast veru­lega saman og það var eigin­lega ekkert annað í stöðunni fyrir okkur en að loka og sjá hvað setur. Co­vid-19 hefur náttúru­lega farið rosa­lega illa með reksturinn hjá öllum og þá sér­stak­lega í mið­bænum. En það sem við höfum látið yfir okkur ganga í mið­bænum er hrein­lega rosa­lega erfitt við­skipta­um­hverfi undan­farin ár vegna stöðugra gatna­lokana og fram­kvæmda,“ segir Arn­dís.

Bókabúðin hefur verið starfrækt á Laugavegi í fjölda ára.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hún nefnir þá tíma­bundnar götu­lokanir, bæði vegna fram­kvæmda og til að gefa gangandi veg­far­endum meira rými, á Lauga­vegi og hliðar­götunum, sem hafa verið mjög tíðar síðustu ár. „Svo kemur rúsínan í pylsu­endanum: ein­stefna í báðar áttir á einu verslunar­götu landsins, Lauga­veginum. Allt þetta sem er búið að vera að gerast með þessari ó­stjórn í bænum síðustu ár hefur haft gríðar­leg á­hrif á reksturinn,“ segir Arn­dís.

„Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir þessu. Það er svo gaman og fal­legt að hugsa til þess að hafa göngu­götu. En undan­farin fjögur ár hafa að­stæður verið sér­stak­lega erfiðar hjá okkur vegna stans­lausra götu­lokana og bygginga­fram­kvæmda,“ heldur hún á­fram. Hún bendir á að undan­farin ár hafi bæst við hátt í fjögur hundruð hótel­her­bergi við Lauga­veginn. „Það sem er svo vont við þetta er að fram­kvæmdir hafa allar verið leyfðar á sama tíma, með til­heyrandi sprengju­látum og ó­hljóðum í vinnu­vélum á verslunar­tíma.“

Stór hluti Laugavegar og Skólavörðustígs eiga að verða varanlegar göngugötur.
Fréttablaðið/Eyþór

Búið að venja fólk af mið­bæjar­ferðum

„Borgar­stjórn hefur bara ekki snefil af til­finningu fyrir rekstri verslana. Ef ein­hvern tíma hefði átt að leyfa um­ferð, þá er það núna. Að detta í hug að loka Lauga­veginum ofan í á­standið vegna co­vid, það segir til um al­gert skilnings­leysi borgar­yfir­valda gagn­vart verslunar­eig­endum,“ heldur hún á­fram. Hún segist þá hafa slegið á þráðinn til Borgar­stjóra ný­lega til að ræða málið en hafi að­eins mætt pirringi.

Hún segir að nú sé komið að ögur­stundu fyrir verslunar­eig­endur í mið­bænum. Hér séu ekki lengur neinir ferða­menn og ó­víst hve­nær þeir fari að tínast aftur til landsins. Göngu­götum í mið­bænum hafi væntan­lega upp­haf­lega verið komið á með fjölda ferða­manna í mið­bænum einnig í huga. Nú séu hins vegar fáir á ferli í mið­bænum. „Svo fór ég í Kringluna og Smára­lindina um helgina og þar var pakkað af fólki. Ís­lendingar eru alveg hættir að vilja koma í mið­bæinn eftir þessari lokanir. Það er hreinlega búið að venja fólk af því að koma í bæinn,“ segir hún.

Arn­dís segir lokun Bóka­búðar Máls og menningar vonandi tíma­bundna. Að­spurð hvað þurfi til að hún geti opnað aftur, segist hún ekki alveg vissAð minnsta kosti þurfi fleiri að kíkja á Lauga­veginn. „Ég mun bara fylgjast með gangi mála og vonandi ná að opna sem fyrst aftur. En það var ekkert annað í stöðunni hjá okkur en að loka.“

Eigendurnir vona að hægt verði að opna bókabúðina aftur sem fyrst.
Fréttablaðið/Anton Brink