Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lokaði í gær einum veitingastað í miðborginni tímabundið þar sem aðstæður með tilliti til sóttvarna þóttu „með öllu óviðunandi.“ Að sögn lögreglu voru of margir inn á staðnum miðað við stærð hans, skortur á sóttvarnarskipulagi og alls ekki tveggja metra bil milli gesta.

Annar staður hafði ekki gert viðunandi ráðstafanir til að tryggja sóttvarnir og var tveggja metra reglan „alls ekki virt“ á tilteknu svæði. Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að ráðstafanir hafi þar verið gerðar tafarlaust og að skýrsla skrifuð á brotið.

Þrettán staðir í miðborginni voru heimsóttir í eftirlitsferð lögreglu í gærkvöldi og voru einungis fjórir með sín mál í mjög góðu ástandi, að sögn lögreglu.

Alls þurftu sjö staðir að gera úrbætur og bæta skipulagið fyrir aukna aðsókn á staðina en fáir voru inn á stöðunum þegar lögregla leit við. Þá fengu starfsmenn ráðleggingar um hvað mætti gera betur.

Staðir í Kópavogi og Breiðholti til fyrirmyndar

Einnig var farið í heimsóknir á átta veitingastaði í Kópavogi og Breiðholti. Að sögn lögreglu voru flestir staðir þar með allt sitt á hreinu og til fyrirmyndar. Þá var starfsfólki leiðbeint og aðstoðað við að gera betur ef þess var óskað.

„Gerð ein athugasemd þar sem vantaði spritt í sal og ætlaði starfsfólk að lagfæra það strax.,“ segir í tilkynningu.

Á sunnudag greindi Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, frá því að lögreglan myndi byrja að sekta veitingastaði þar sem sóttvarnarreglum og samkomutakmörkunum væri ekki fylgt og jafnvel loka þeim tímabundið.

15 af 24 veitinga- og skemmtistöðum höfðu þá reynst vera með ófullnægjandi smitvarnir við eftirlitsferð lögreglu kvöldið áður. Að sögn Ásgeirs vonaðist lögreglan til að þurfa ekki að grípa til þessa úrræðis en það hafi sýnt sig að ekki dugi að höfða einungis til skynsemi rekstraraðila og viðskiptavina.