Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fagnar fregnum um uppgötvun á verndandi arfgerð gegn riðu á Íslandi.

Rannsóknarhópur fann sex kindur á bænum Þernunesi í Reyðarfirði sem geta hvorki veikst né smitað aðrar kindur af riðu. Riða er ólæknandi og banvænn príonsjúkdómur sem leikið hefur íslenska sauðfjárstofninn grátt í gegnum árin. Með ræktunarstarfi og frekari rannsóknum er nú möguleiki fyrir hendi að útrýma riðu á Íslandi á næstu áratugum, eða jafnvel árum ef vel gengur.

„Þessar fréttir gefa fyrirheit um að eftir áratuga baráttu sé loksins komin leið til að vinna lokasigur á riðuveiki á Íslandi. Næstu skref eru að greina hversu útbreitt hin verndandi arfgerð er og með hvaða hætti megi nýta sér þessa nýju þekkingu í ræktunarstarfi,“ segir Svandís.

Hrúturinn Gimsteinn er arfgerðina ARR sem þýðir að hann getur hvorki veikst né smitað aðrar kindur af riðu.

Ein ánna sem hefur þennan mikilvæga eiginleika er nefnd eftir ráðherranum sjálfum og heitir Svandís. Systir ærinnar er nefnd eftir flokkssystur Svandísar, forsætisráðherranum Katrínu Jakobsdóttur.

Þessar kindur eru lykillinn að því að útrýma riðu á Íslandi. Þær heita Njálu-Brenna, Njálu-Saga, Gimsteinn, Hallgerður, Katrín og Svandís.
Kindurnar sex eru frá Þernunesi í Reyðarfirði. Þær eru kollóttar og rekja ættir sínar meðal annars í kollótta féð í Reykhólasveit og á Ströndum.