Bandaríski samfélagsmiðlarisinn Twitter hefur staðfest að unnið sé að breytingarhnappi á samfélagsmiðlinum sem geri notendum kleift að leiðrétta færslur sínar.

Jay Sullivan sem starfar hjá Twitter segir notendur hafa óskað eftir breytingarhnappi í mörg ár og að fyrirtækið hafi verið að vinna að hnappinum frá því á síðasta ári.

Það séu þó ýmsar vangaveltur um útfærslur á happinum þar sem fyrirtækið vill koma í veg fyrir að hann verði misnotaður, sem dæmi til að taka samtöl úr samhengi og fleira.

Hingað til hafa notendur þurft að eyða færslum í heild sinni og birta upp á nýtt ef þeir hafa viljað gera breytingar á þeim.

Twitter hefur nú gefið það út að þeir muni hefja prófanir á hnappinum á næstu mánuðum.

Nýi stjórnarmaðurinn Elon Musk setti fram könnun á Twitter um það hvort notendur kysu að hafa breytingarhnapp fyrr í vikunni og tóku yfir fjórar milljónir manna þátt.

Twitter hefur þó gefið út að hugmyndin um breytingarhnapp sé ekki komin frá Musk þar sem vinnan við hnappinn hafi þegar verið hafinn áður.