Gærdagurinn var fyrsti dagurinn síðan í mars þar sem ekki var tilkynnt um ný dauðsföll vegna COVID-19 í Svíþjóð. En eins og flestir vita hefur faraldurinn verið einstaklega slæmur þar í landi og sænsk stjórnvöld harðlega gagnrýnd fyrir linari aðgerðir en flest önnur Evrópuríki hafa viðhaft.

Faraldurinn í Svíþjóð náði hámarki í lok júní og hefur nýjum tilfellum fækkað síðan þá. Þrátt fyrir að Svíar geti fagnað því að ekkert nýtt dauðsfall var tilkynnt fjölgaði nýjum tilfellum um rúmlega 350. Alls hafa nú rúmlega 82 þúsund tilfelli greinst í landinu og dauðsföll verið tæplega 5.800. 68 þúsund eru með virkst smit.

Anders Tegnell, hinn umdeildi sóttvarnalæknir Svíþjóðar, fagnaði þessum nýju tíðindum og því að tölur um tilfelli og dauðsföll væru á leiðinni niður. Líkt og hér á Íslandi hefur hins vegar orðið fjölgun tilfella í aldurshópnum 20 til 29 ára. Tegnell sagði þetta virkilega varhugaverða þróun. „Margir í þessum aldurshópi líta á sig sem ódauðlega,“ sagði Tegnell. „Það er mikil hætta á að þessi hópur smiti út frá sér.“