Tvö þúsund skammtar af rúss­neska Sput­nik V-bólu­efninu gegn CO­VID-19 komu til Gaza-strandarinnar í gær. Þetta er fyrsta bólu­efnið sem berst þangað en tafir urðu á af­hendingu vegna þess að Ísraels­menn, sem stjórna flestum inn­göngu­leiðum til Gaza, hafa dregið lappirnar með að veita leyfi fyrir flutningi bólu­efnisins þangað.

Stjórn­­mála­­menn á hægri væng stjórn­málanna í Ísrael vildu ekki að nein bólu­efni yrðu send til Gaza nema að tveimur ísraelskum ríkis­­borgurum, sem talið er að haldið sé föngnum þar, yrði sleppt og líkams­­­leifar tveggja ísraelskra her­manna fluttar til Ísrael.

Bólu­­setningar­her­­ferð Ísraela hefur vakið heims­at­hygli og er ein þeirra sem gengið hefur hvað best í heiminum. Stjórn­völd þar hafa verið gagn­rýnd fyrir að standa í vegi fyrir dreifingu bólu­efna til Palestínu, bæði Gaza og Vestur­bakkans, þar sem um 5,2 milljónir Palestínu­manna búa. Sam­­kvæmt palestínskum yfir­­völdum hafa greinst meira en 53 þúsund til­­­felli CO­VID-19 og 537 látist.

Bólu­efna­­skammtarnir sem bárust til Gaza-strandarinnar duga fyrir þúsund manns en líkt og með flest önnur bólu­efni gegn CO­VID-19 þarf tvo skammta til að það öðlist fulla virkni. Fyrstu skammtarnir verða veittir sjúk­lingum sem fengið hafa líf­­færa­gjafir eða þjást af nýrna­bilun. Heil­brigðis­­starfs­­fólk verður ekki bólu­­sett að sinni þar sem ekki er um nægt magn bólu­efnis að ræða.