Eftir að hafa verið lokað í 18 mánuði rennur nú vatn loks aftur um salernisaðstöðu við náttúruperluna Hverfjall í Mývatnssveit. Landeigendur tóku til sinna ráða eftir að hafa beðið eftir aðgerðum Umhverfisstofnunar.

Stefnt er á að bora nýja borholu í lok mánaðarins en sú fyrri fylltist af sandi – eins og spáð hafði verið.

Hverfjall hefur verið friðlýst í áratug og árið 2016 var opnuð salernis­aðstaða, útbúin nýjasta hreinsibúnaði. Fyrir Covid-faraldurinn var talað um að 100 þúsund manns kæmu árlega að fjallinu.

Til að fá rennandi vatn í salernis­aðstöðuna var ákveðið að bora borholu lágt í landslaginu. Heimamenn bentu á að þegar snjóa leysti myndi holan fyllast af sandi og eyðileggja þannig lagnir og jafnvel blöndunartæki. Á það var ekki hlustað, en eftir snjóþungan síðasta vetur gerðist það sem heimamenn spáðu fyrir um.

Umhverfisstofnun reyndi að hreinsa dælur og annað í húsinu en allt kom fyrir ekki og var því einfaldlega skellt í lás. Í ár hefur verið stöðugur straumur af erlendum ferðamönnum og horfði blaðamaður Fréttablaðsins á þegar tvær rútur komu með farþega í spreng sem komu að lokuðum dyrum. Þurftu þeir því að kúldrast út í hraun og gera þarfir sínar þar.

Ólöf Hallgrímsdóttir, einn landeigenda, viðurkennir að vera komin með nóg af hægagangi stjórnsýslunnar og ákvörðunarfælni hennar.

„Þetta gengur ekki lengur. Hægri hendin veit ekkert hvað sú vinstri er að gera og við viljum fá að sjá um svæðið því við treystum ekki lengur Umhverfisstofnun. Hún hefur ekkert verið að sinna hlutverki sínu við fjallið,“ segir Ólöf.

Hún bendir á að landeigendur hafi einfaldlega fengið nóg og tekið málið í sínar hendur. Útvegað vatnstank sem yfirborðsvatni er dælt í og þannig sé hægt að halda salernishúsinu opnu – í bili að minnsta kosti. Þá hafi landeigendur meira að segja keypt nokkra varahluti til að halda húsinu gangandi.

„Við getum ekki horft upp á þetta lengur. Við erum búin að vera ýta á stofnunina því við viljum sjá um svæðið og ég er bjartsýn að það gerist um áramótin,“ segir Ólöf. Starfsmaður Umhverfisstofnunar í Mývatnssveit segir að stefnt sé á að bora nýja holu í lok mánaðarins. Von sé að hún gangi betur en síðasta hola.