Heimastjórn Borgarfjarðar eystri í hinu nýja sveitarfélagi Múlaþingi á Austurlandi vill að sveitarstjórnin beiti sér fyrir því að hafsvæði sem kallað er Skápurinn verði lokað fyrir togveiðum.

Togarar megi almennt veiða á miðum tólf sjómílur frá landi. Sums staðar megi togarar koma nær, meðal annars á Borgarfjarðarmiðum. „Þar mega togarar veiða allt að sex sjómílur frá landi og er umrætt svæði nefnt í daglegu tali Skápur,“ segir í fundargerð heimastjórnarinnar. Á hverju hausti komi togarar og veiði á heimamiðum Borgfirðinga þannig að heimasmábátar þurfi róa allt að 40 sjómílur til að eiga von á afla. „Þetta er eina slíka svæðið á landinu sem er svo nálægt sjávarþorpi. Þetta ástand er ógn við kjarnaatvinnugrein brothættrar byggðar.“