Lokatölur liggja nú fyrir í bæði Reykjavíkurkjördæmi norður og suður. Guðlaugur Þór Þórðarson og Diljá Mist Einarsdóttir eru kjörin fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík norður. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Hildur Sverrisdóttir og Birgir Ármannsson eru kjörin í Reykjavík suður.

Ásmundur Einar Daðason nær inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn, flokkurinn fer úr 5,3 prósent fylgi í Reykjavík norður í síðustu kosningum og í 12,3 prósent. Lilja Alfreðsdóttir nær inn í Reykjavík suður.

Vinstri græn missa fylgi milli kosninga en ná inn tveimur þingmönnum, Katrínu Jakobsdóttur og Steinunni Þóru Árnadóttur. Svandís Svavarsdóttir er kjörin í Reykjavík suður.

Helga Vala Helgadóttir er kjördæmakjörin fyrir Samfylkinguna, Jóhann Páll Jóhannsson nær inn sem jöfnunarþingmaður og skákar þannig Brynjari Níelssyni úr Sjálfstæðisflokknum. Kristrún Frostadóttir er kjördæmakjörin fyrir Samfylkinguna í Reykjavík suður.

Píratar ná tveimur þingmönnum í Reykjavík norður, Halldóra Mogensen er kjördæmakjörin og Andrés Ingi Jónsson kemur inn sem jöfnunarþingmaður. Píratar tapa fylgi í Reykjavík suður og fara úr tveimur þingmönnum niður í einn, Björn Leví Gunnarsson.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir er nýr þingmaður Viðreisnar í Reykjavík norður, Hanna Katrín Friðriksson nær aftur kjöri í Reykjavík suður.

Þá er Tómas A. Tómasson, best þekktur sem Tommi á Búllunni, er nýr þingmaður Flokks fólksins. Flokkurinn bætir við sig fylgi frá síðustu kosningum á landinu öllu. Inga Sæland, formaður flokksins, er kjördæmakjörin í Reykjavík suður.

Í fyrri tölum var útlit fyrir að Fjóla Hrund Björnsdóttir næði inn sem jöfnunarþingmaður fyrir Miðflokkinn en staðan breyttist við talningu fleiri atkvæða.

Sósíalistaflokkur Íslands nær ekki inn þingmanni í Reykjavík og virðist ekki ætla að ná þingmanni inn í öðrum kjördæmum, rúmlega 700 atkvæðum munar á því að Gunnar Smári Egilsson nái inn á þing í Reykjavík norður.