Talningu í Reykjavík er lokið og meirihluti Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna er fallinn.
Framsóknarflokkurinn fékk 18,7 prósent, fær fjóra menn í borgarstjórn og vinnur mikinn kosningasigur.
Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn í borginni með 24,5 prósent og sex menn kjörna.
Samfylkingin tapar manni, er með rétt tæp 20 prósent og fimm borgarfulltrúa.
Píratar fá 11,6 prósent, þrjá menn í borgarstjórn og bæta við sig einum fulltrúa. Sósíalistar bæta líka við sig einum fulltrúa, fá 7,7 prósent fá tvo menn kjörna
Viðreisn tapar öðrum borgarfulltrúa sínum, fær 5,2 prósent og einn borgarfulltrúa. Flokkur fólksins heldur sínum eina fulltrúa.
Af viðbrögðum oddvita flokkana í umræðum á RÚV eftir að fyrstu tölur bárust er ljóst að snúið gæti orðið að mynda meirihluta.
Tveggja flokka meirihluti er ómögulegur en 12 fulltrúa þarf til.
Framsóknarflokkurinn getur hins vegar myndað meirihluta bæði til vinstri og hægri.
Þriggja flokka samstarf S B P mögulegt
Samstarf Samfylkingar, Framsóknar og Pírata er mögulegt. Alexandra Briem ein kjörinna fulltrúa Pírata virtist ekki afhuga því mynstri í umræðum á RÚV eftir að fyrstu tölur í borginni voru kynntar.
Ólíklegt að Sanna bjargi meirihlutanum
Sanna Magdalena Mörtudóttir svo gott sem útilokaði í kvöld samstarf við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn. Það kemur í veg fyrir að tveir fulltrúar Sósíalista komi inn í núverandi meirihluta, þar sem Viðreisn á aðild. Ólafur Þ. Harðarson lagði út af þessu í kosningasjónvarpi RÚV og sagði útilokað að mynda meirihluta án Framsóknarflokksins.
Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa samtals 10 fulltrúa og vantar tvo. Viðreisn og Flokkur fólksins gætu mögulega komið inn í slíkt mynstur með sinn fulltrúa hvor.
D - Sjálfstæðisflokkur 24,5% - 6 fulltrúar
B - Framsókn 18,7% - 4 fulltrúar
V - Vinstri græn 4,0% 1 fulltrúi
S - Samfylkingin 20,3% - 5 fulltrúar
C - Viðreisn 5,2% - 1 fulltrúar
P - Píratar 11,6% - 3 fulltrúar
M - Miðflokkurinn - 2,4%
F- Flokkur fólksins 4,5% - 1 fulltrúi
J - Sósíalistar 7,7% - 2 fulltrúi
E - Besta borgin 0,2%
Y - Ábyrg framtíð 0,8%