Ari Brynjólfsson
Laugardagur 6. nóvember 2021
13.00 GMT

Það má segja að líf Sigurðar sé tvískipt. Fyrri hluti ævinnar einkenndist af áfengisdrykkju og þeim erfiðleikum sem henni fylgdi.

„Ég var á milli tvítugs og þrítugs þegar ég fór fyrst á Deild 10 á Kleppi. Deild 10 var bara bið. Þú fórst inn og beiðst bara, undir eftirliti lækna. Það var engin meðferð. Maður heyrði ekki einu sinni orðið alkahólisti. Það var talað um að menn væru blautir eða skemmtu sér of mikið. Þarna var samt verið að bjarga mannslífum, það komu þangað þjóðþekktir útigangsmenn í oft mjög slæmu ásamkomulagi. Þeir sem voru komnir alveg út á jaðar samfélagsins, þeir gátu farið á vinnuhæli í Gunnarsholti eða Víðihlíð. Ég komst aldrei þangað en ég fór nokkrum sinnum á Klepp.“

Val milli lífs og dauða

Áfengið hafði mjög eyðileggjandi áhrif á líf hans á þessum tíma og var hann orðinn mjög veikur upp úr þrítugu. „Ég kvæntist árið 1960 og eignuðumst við fyrri kona mín fjögur börn saman. Leiðir okkar skildu árið 1973 vegna minnar drykkju.“

Sigurður náði nokkrum mánuðum edrú árið 1977. „Ég fór að vinna og gifti mig aftur. Svo fór ég að drekka aftur.“ Það er svo um vorið sem hann fór í Reykjadal.

„Ég fór í mína síðustu afeitrun 8. maí 1978, ári eftir stofnun SÁÁ, þá ráku þeir afeitrunarstöð uppi í Reykjadal. Þar breytist lífið, þetta var allt annað umhverfi en Kleppur. Allt öðruvísi starfsfólk, allt annað viðbót, ég varð alveg hugfanginn,“ segir hann.

Sigurður er 80 ára í dag, 6. nóvember.
Fréttablaðið/Ernir

„Valið á þessum tíma stóð milli þess að lifa eða deyja. Þetta var lokastöðin. Ég vakna uppi í Reykjadal og það var eins og það hefði ekkert gerst áður. Þrátt fyrir allt sem á undan hafði gengið var ég fram að því með mikinn mótþróa fyrir því að hætta að drekka. Ég ætlaði breyta þessu en það kom aldrei til greina að hætta alveg.“

Langaði að gera eitthvað fyrir SÁÁ

„Ég var að mála á þessum tíma, húsa- og bílamálun. Þar á undan hafði ég verið í alls konar verslunarstörfum. Í Reykjadal fékk ég þessa hugmynd að mig langaði að vinna fyrir þessi samtök, SÁÁ. Ég talaði við strák á göngudeildinni þarna hvort þeim vantaði ekki málara eða iðnaðarmann. Hann hringdi svo í mig og sagði mér að það vantaði kokk austur á Sogn. Í desember var ég kominn þangað að vinna í eldhúsinu,“ Sigurður tekur fram að hann sé ekki sá besti í eldhúsinu en hafi verið tilbúinn að læra. „Fljótlega eftir áramót var ég byrjaður sem leiðbeinandi,“ segir hann og hlær.

Starfið tók mjög á og Sigurður var hreint ekki viss hvort hann gæti þetta yfirleitt. Þá sá hann auglýstan sumarskóla í áfengis- og vímuefnaráðgjöf í Minnesota í Bandaríkjunum. „Þetta var bara stutt, mánuður sem ég var úti með alls konar fólki. Þá tók ég ákvörðun að gera þetta að ævistarfi mínu.“

SÁÁ-menn á níunda áratugnum ásamt bandarískum kollegum sínum. Þórarinn, Sigurður, Joe og fleiri.
Aðsend mynd.

Hófst þá nokkurra ára tímabil þar sem Sigurður sótti um öll slík námskeið sem hægt var að finna. „Ég fór í öllum fríum, ég var að hringja út og spyrja hvort ég mætti koma og fylgjast með. Á sama tíma var ég að vinna á Sogni, þar kom nýr læknir, Þórarinn Tyrfingsson og þá byrjum við að innleiða alls konar nýja hugsun.“ SÁÁ var ekki hátt skrifað á þessum tíma. „Það var talað um að þetta myndi endast í eitt, kannski tvö ár. Það var mikill kraftur í öllum í byrjun níunda áratugarins, það opnar Staðarfell, Silungapollur og lögð drög að spítala.“

Sá það versta í Atlanta

Sigurður hélt áfram að leita vestur. „1982 sá ég auglýst í Þjóðviljanum, af öllum blöðum, Fullbrightstyrki til náms í Bandaríkjunum fyrir háskólamenntaða. Ég var ekki með neina háskólamenntun en það kostaði ekki nema frímerki að sækja um.“ Upp hófst langt ferli sem endaði með því að hann fór að starfa á afeitrunardeild á ríkisspítala í Atlanta í Georgíu. „Ég sá það versta af öllu slæmu. Þetta var fátækt fólk, mest svart fólk sem hafði fundist á götunni. Mikil vinna fór í að bera kennsl á það. Ég man sérstaklega eftir ungum manni frá Texas sem ég var að hjálpa í átta daga. Hann var kominn með áætlun fyrir framtíðina, svo komu allt í einu tvær löggur að sækja hann, þá var hann eftirlýstur.“

Bandaríska kerfið er töluvert stéttaskipt, þar þarf að borga háar fjárhæðir til að komast í góða meðferð. „Það komu alveg stjörnur þegar ég fór með fleirum á Betty Ford-stöðina í Kaliforníu. Ég hélt að Nick Nolte, sem var þarna mjög venjulegur væri þarna undir dulnefni. Svo var þetta ekkert hann, bara tvífari hans,“ segir hann og hlær.

Þegar hann fór heim var hann búinn að frétta af stórri árlegri vímuefnaráðstefnu sem haldin var í Atlanta. Sigurður og Þórarinn yfirlæknir ákváðu að fara saman út á ráðstefnuna. „Þetta var svo mikil upplifun fyrir okkur að við fórum árlega í fimmtán ár. Við eignuðumst þarna mjög mikla stuðningsmenn, fólk sem kom til Íslands og hélt erindi. Leiðin lá alltaf vestur um haf. „Danir, Bretar og allir hinir í Evrópu eru miklu aftarlegar á merinni. Það er sennilega ekkert land í Evrópu sem getur státað sig af því að yfirvöld viðurkenni þetta starf, áfengis- og vímuefnaráðgjafi.“

Þurfti harmleik til

Talsverður fjöldi vildi gerast ráðgjafar hjá SÁÁ, snemma var settur á fót lítill skóli. „Það sem vakti fyrir okkur var að gera þetta að fagi.“ Töldu þeir það nauðsynlegt í ljósi þess að mikla þekkingu þarf á fíknisjúkdómum og fagmennsku þar sem um er að ræða mjög viðkvæman hóp á viðkvæmasta skeiði lífsins. „Við bönkuðum upp í ráðuneytum og allir voða hrifnir en það gerðist ekki neitt. Við tölum við Bandaríkjamennina og spurðum hvort við mættum ekki taka þeirra próf.“

Sigurður og eiginkona hans, Munda, eiga stóran hóp af börnum, hér má sjá hópinn í lok áttunda áratugarins.
Aðsend mynd.

Ferlið var flókið en það tókst á endanum að taka próf fyrir framan erlendan fulltrúa með skeiðklukku og senda tíu íslensk próf út til Bandaríkjanna til að öðlast löggildingu þar, Sigurður var í hópi þeirra fyrstu sjö sem náðu prófinu.

„Það þurfti mikinn harmleik í meðferðarmálum til að eitthvað var gert. Það kemst upp um kynferðislega misnotkun og trúarofstæki í Byrginu. Ráðherra verður alveg brjálaður segir það ekki ganga að hver sem er geti meðhöndlað veika. Þá var allt tilbúið hjá okkur. Siv Friðleifsdóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra, sagði bara ok, gerum þetta. Við áfengis- og vímuefnaráðgjafar verðum þá nýjasta heilbrigðisstéttin.“

Íslenskir ráðgjafar verðmætari en demantar

Ráðgjafar með réttindi frá Landlækni eru nú orðnir fleiri en sextíu. „Við gegnum lykilhlutverki í meðferðinni á öllum sviðum, við erum langstærsti hópurinn, sjáum um viðtöl, greiningar, útskriftaráætlanir, nefndu það.“ Meðal síðustu verka Sigurðar á ferlinum er að þjálfa tíu manna hóp nýrra ráðgjafa. „Til að verða ráðgjafi þarf þrjú ár af klínísku starfi, þrjú ströng próf. Við erum þannig að tryggja að þegar veikur alkahólisti leitar til viðkomandi þá fær hann og fjölskylda hans faglega nálgun undir stífum siðareglum.“ Íslenskir ráðgjafar hafa það fram yfir aðra að þeir geta bæði beitt mismunandi nálgun eftir efni en einnig aðstæðum.

„Það er hægt að taka ráðgjafa úr sérhæfðri kvennameðferð eða fyrir eldri karla og sett yfir í fjölskyldumeðferð, þeir eru gulls ígildi og eru verðmætari en demantar ef þeir eitthvert út að vinna,“ segir hann.

Nemahópurinn er mismunandi, oft er um að ræða fólk með félagsráðgjafagrunn eða sálfræðigrunn sem eru að bæta við sig menntun. Síðan eru margir eins og Sigurður, óvirkir alkahólistar sem vilja hjálpa öðrum. „Það eru nokkrir sem segja að þegar þeir fá viðhorfsbreytinguna að það vakni í þeim pínulítill ráðgjafi,“ segir hann og hlær.

Hvað hefur breyst á þessum tíma frá því þú byrjaðir?

„Allt. Bæði þekkingin á sjúkdómnum og umhverfið þarna úti. Það er rosalega mikið vitað um þennan sjúkdóm í dag. Þetta er langvinnur heilasjúkdómur sem einkennist af endurtekningum. Það er í raun sjaldgæft að þetta smelli með einni meðferð, á meðan fólk er að fóta sig þarf það oft að koma inn aftur. Svo þarf að viðhalda batanum, eins og með sykursýki eða flogaveiki. Allt umhverfið hefur breyst, viðhorf gagnvart alkahólistum er allt annað. Þó að margir hafi fordóma þá er sá hópur á undanhaldi. Meðal þess sem við höfum áorkað er nútímamaðurinn sem áttar sig á vandamálinu og fer á Vog án þess að skammast sín. Svo hafa komið inn ný efni með nýjar áskoranir og nýjan lærdóm á hvernig takast á við það.“

Eitt ár varð að níu

Hvað hefur þú hjálpað mörgum? Gróflega?

„Ég hef ekki hjálpað neinum, það hjálpar sér sjálft,“ segir hann og hlær. „Ég hef ekki hugmynd hvað ég hef hitt marga. Það sem þarf að hafa í huga er að einn getur ekki hjálpað neitt, það er bara sem hópur sem hægt er að hjálpa fólki.“

Sigurður hætti formlega að vinna fyrir áratug síðan, það gekk yfir. „Það var búið að ákveða að ég myndi hætta sjötugur. Það var haldin veisla. Ég kvaddi alla. Rosa mikið jibbí. Ég fór í frí til Bandaríkjanna og var að ferðast með vini mínum í Nýju Mexíkó. Eina sem ég talaði um voru indjánarnir sem drukku svo mikið og áttu engar meðferðarstöðvar. Ég kom heim og fór að hlaupa, á endanum fór ég og hitti Þórarinn og mætti í vinnuna daginn eftir. Ég ætlaði að taka eitt ár í að afeitra mig úr þessari vinnu, þau urðu níu.“

Hann hætti störfum í gær, líklega endanlega í þetta skiptið.

Hefur fundið fyrir löngun

„Á þessu fjörutíu ára tímabili hef ég fundið fyrir þessu, annars væri ég ekki mennskur. Leiðbeiningarnar mínar frá upphafi hafa verið að passa upp á eigin geðheilsu, ef hún er ekki í lagi þá get ég ekki leiðbeint öðrum.“

Sjálfur er Sigurður AA-maður. Ástæðan fyrir því að hann mælir með þeim fyrir aðra er að reynslan sýnir að batahorfur þeirra sem sækja reglulega fundi að lokinni meðferð eru meiri.

„Það sem margir skilja ekki er að fyrir alkahólista er það að segja sögu sína magnað tæki til meðferðar á sjúkdómnum. Það á ekkert að smjatta á þessu, það þarf segja hvað gerðist tæpitungulaust. Á löngum tíma minnkar löngunin til að drekka. Það sem gerist líka er maður eignast edrú-fortíð, það er eftirsóknarvert að geta talað um vandamál sem tengjast ekkert vímugjöfum.“

Alkahólismi liggur í ættum

Sá fyrirlesari um fíkn sem hefur vakið hvað mesta athygli hér á landi á síðari árum er Dr. Gabor Mate sem rekur fíkn til áfalls eða tengslarofs í æsku. „Ég veit það ekki,“ segir Sigurður.

„Fólk hefur alltaf verið að leita að skýringum, en hvað ef við finnum hana? Hvað ef allir alkahólistar hafi orðið fyrir áfalli? Það breytir engu, þú þarft samt að hætta að drekka.“ Það sem er vitað fyrir víst er að alkahólismi liggur í ættum. „Líffræðilegi hlutinn og sá félagslegi þurfa að koma saman. Það má finna margar skýringar á hvers vegna fólk byrjar, það er félagslegur þrýstingur eða hreint fikt.“

Gæti gert stöðuna verri

Sigurður sér ekki mikinn tilgang í afglæpavæðingu vímuefna. „Það er enginn glæpamaður sem er tekinn með neysluskammt á sér, það er slegið á puttana á þeim. Ef það á ekki að slá á puttana á þeim sem eru að nota kannabisefni eða annað þá er alveg eins hægt að lögleiða þetta.“

Sigurður óttast að það gæti gert stöðuna verri. „Rannsóknir á áhrifum kannabisefna á heilann eru óhuggulegar. Ég hef séð svo mörg dæmi um fólk sem heldur að þetta sé voða vægt, það þarf svo að stækka skammtana til að fá vímuna og svo byrja að bæta við öðrum efnum,“ segir hann. „Þegar bjórinn var leyfður minnkaði vandinn ekki neitt, við fórum að sjá fjölgun á líkamlegum kvillum og valda miklum skaða meðal eldri hópa.“ Með afglæpavæðingu sé verið að gefa þau skilaboð að kannabisreykingar séu samfélagslega viðurkenndar. „Þetta hefur ekkert farið neitt sérstaklega vel af stað í Denver í Colorado, þeir hafa sérstaklega tekið eftir fjölgun umferðarslysa. Hér má gera ráð fyrir að við sjáum nýja hópa byrja að reykja kannabis. Það er staðreynd að þetta skemmir hugræna úrvinnslu. Þetta hleðst á fituvefina í heilanum, helmingunartíminn er mjög langur. Fólk sem hefur reykt reglulega í áraraðir er oft ekkert á sömu plánetu og við.“

Stemning í Boston maraþoninu

Helsta áhugamálið eru hlaupin, hann byrjaði á þeim um fimmtugt.

„Þegar það rann af mér fór ég í líkamsrækt,“ segir hann. Sigurður stundaði lyftingar og var orðinn mjög sterkur, þeim þurfti hann hætta af læknisráði.

„Ég gat ekki hugsað mér að gera ekki neitt. Svo var ég staddur í Boston árið 1994 og fylgdist með marklínunni í stóra maraþoninu. Ég varð fyrir rosalegum áhrifum af stemningunni. Þórarinn var þá eitthvað hlaupa niðri á Valbjarnarvelli, ég fer með honum og komst tvo hringi. Áður en ég vissi af var ég byrjaður að hlaupa á stígum.“ Tveimur árum síðar tók Sigurður sjálfur þátt í Boston maraþoninu. „Það var á 100 ára afmæli hlaupsins, ég, Óttar Guðmundsson geðlæknir og þrjátíu þúsund aðrir hlupum. Ég var með gapandi kjaftinn allan tímann það var svo mikil stemning,“ segir hann. Sigurður

„Ég hljóp maraþon í London, Berlín, Munchen og aftur í Boston. Svo hljóp ég í Graceland og málaði skóna mína bláa eins og lagið með Elvis. Ég og vinur minn Ágúst Kvaran fórum upp í 50 kílómetra, hlupum frá Þingvöllum niður á Austurvöll, hlupum svo í Vesturbæjarlaugina til að ná 50. Ég reimaði ekki á mig skó nema fyrir 20 kílómetra.“

Ágúst sá svo auglýsingu fyrir 100 kílómetra fjallahlaup á Ítalíu. „Það var 35 stigi hiti, hlupum líka á nóttunni.“ Tók þá við hlaup frá Big Ben í London til Brighton. Þá fékk Ágúst þá hugmynd að taka þátt í heimsmeistaramótinu í 100 km hlaupi í Frakklandi. „Við þurfum að fara til ÍSÍ, urðum okkur út um landsliðsbúninga og þeir tóku fram að við værum fulltrúar Íslands og ættum því ekki að reykja og drekka. Við lofum að gera það ekki,“ segir Sigurður. Hann náði 100 kílómetrunum á 11 og hálfum tíma.

Sigurður og Ágúst í landsliðsbúningunum í Frakklandi 2001.
Aðsend mynd.

Komst ekki heilan hring til að byrja með

Þórarinn Tyrfingsson, vinur og samstarfsfélagi Sigurðar til áratuga, man hvernig það kom til að Sigurður byrjaði að hlaupa.

Þórarinn og Sigurður í 25 ára edrúhlaupinu.
Aðsend mynd.

„Við Sigurður vorum saman í ræktinni að taka bekkpressu, þá hafði ég orð á því að það væri ekki íþrótt sem hentaði mönnum á okkar aldri,“ segir Þórarinn. Sigurður var á leið til Bandaríkjanna þegar það kom í ljós kemur að hann var berkjubólgu með astma. „Ég setti hann á úða og sýklalyf og sagði að hann þyrfti að hætta að reykja. Þetta tvennt varð til þess að við fórum saman niður á Laugardalsvöll og hlupum þar.“

Þórarinn man ekki hvor þeirra átti hugmyndina að fara að hlaupa. „Hann komst ekki hringinn. Næsta sem ég heyrði af honum, sem var nokkrum vikum síðar, lét hann Mundu sína keyra sig upp á Vík þar sem hann vann og hljóp þaðan og á Vog. Það munu vera um 17 kílómetrar. Hann var ekki lengi að þessu.“

Mikil heilun fylgir hlaupunum

Sigurður segir að hann hafi farið alla leið í hlaupunum, „Þetta er það sama með veiðiskapinn. Ég lærði að veiða með flugu og svo gat ég ekki hætt að veiða. Það eru margir alkahólistar sem kannast við þetta, að fara alla leið.“

Sigurður ætlar ekki að hætta að hlaupa í lengd eða bráð.
Fréttablaðið/Ernir

Sigurður hefur verið heppinn að meiðast lítið, en það kom svo fyrir að hann braut spjaldhrygginn. Það kom þó ekki veg fyrir að hann héldi áfram. Hann er stoltur meðlimur í 100 kílómetra klúbbnum sem var lengi vel fámennur, í vikunni sem er að líða bætti hópurinn við sig 40 nýjum meðlimum. „Það er búið að fjölga mikið, sérstaklega konum.“

„Þetta hefur stuðlað að því að ég hef haldið góðri geðheilsu í vinnunni. Það er rosalega mikil heilun sem fylgir þessu.“

Í dag á hann í góðu sambandi við börnin sín fjögur. „Ég hef átt yndislegan seinni helming af lífinu. Ég á í góðu sambandi við börnin mín, konan mín á fimm börn, svo eigum við tvö fósturbörn. Þú getur rétt ímyndað þér fjölda barnabarna,“ segir hann og brosir. „Þegar ég fór inn á Klepp þá var spurningin sem brann á mönnum: „Er líf eftir afeitrun?“ Það er óhætt að segja það, glæsilegt líf.“

Athugasemdir