Bjartari tímar eru fram undan og tímabært að taka varfærin skref í átt að afléttingu. Þetta segja Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítala, í aðsendri grein á Vísi.
„Fram undan eru lokametrar þessarar bylgju og þá skiptir máli að verkefnið sé skýrt afmarkað svo að við missum ekki sjónar á því hvert við ætlum okkur,“ segir í greininni.
Einkenni Omíkron afbrigðisins eru vægari og innlagnir færri en fólk veikist þó og í miklu magni börn og ungmenni, með tilheyrandi röskun á samfélaginu. „Brýnt er því að skoða hvernig megi létta á sóttvarnarráðstöfunum til að halda samfélaginu sem mest gangandi,“ segja Willum og Guðlaug.
Allar mögulegar afléttingar séu nú í skoðun í samráði við sóttvarnalækni, með hliðsjón af skynsemi og öryggi. „Næstu skref eru að aflétta neyðarstigi spítalans. Áður en það er gert verðum við að vera fullviss um að slíkt sé óhætt,“ segir í greininni.
Öll skref verði tekin með hliðsjón af nýjustu upplýsingum og gögnum frá sérfræðingum.
Heilbrigðiskerfi í forgangi
Öflugt heilbrigðiskerfi þarf að hafa forgang ef við ætlum að komast út úr heimsfaraldri kórónuveirunnar, segja Willum og Guðlaug. „Ósérhlífni og hugvit heilbrigðisstarfsfólks þegar á reynir hefur verið aðdáunarvert,“ segja þau í greininni.
Innlagnir og eftirköst vegna Covid-sýkinga kalla á tvöfalda umönnun og gerir starfsfólki erfiðara fyrir að anna verkefnum ótengdum veirunni. Willum og Guðlaug segja það frumskyldu stjórnvalda að tryggja aðstæður þar sem allir geti sótt sér viðunandi heilbrigðisþjónustu.
Í gær voru 187 starfsmenn Landspítala í einangrun vegna veirunnar, með tilheyrandi röskun og mönnunarvanda. Nú eru þeir orðnir 200, samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Landspítalanum.
„Við þessu hefur þurft að bregðast hratt, hafa bæði sjálfstætt starfandi aðilar, heilbrigðisstofnanir um allt land og einstaklingar í bakvarðarsveitum sýnt snör viðbrögð til að tryggja mönnun á Landspítala,“ segir í greininni.
Spítalanum hefur einnig verið veitt svigrúm til að greiða fyrir viðbótarvinnuframlag næstu fjórar vikurnar. Willum og Guðlaug telja að það muni auka mönnun um tuttugu til þrjátíu prósent.
„Saman hefur okkur því tekist að brúa bilið vegna áskorunar um mönnun og Landspítali stendur sterkari,“ segja Willum og Guðlaug.
Covid-göngudeildin hefur einnig gefið góðan árangur, segir í greininni. Meðferð þar hafi dregið úr innlögnum og þjónustan er stöðugt aðlöguð eftir því sem skilningur á veirunni eykst.
„Allt samfélagið hefur lagt mikið á sig til að ná þessum árangri sem nú blasir við. Með því að standa saman að sóttvarnaráðstöfunum höfum við náð að hemja vöxt veirunnar, vernda okkar viðkvæmustu hópa og draga úr álagi á heilbrigðiskerfið,“ segja Willum og Guðlaug.