Bjartari tímar eru fram undan og tíma­bært að taka var­færin skref í átt að af­léttingu. Þetta segja Willum Þór Þórs­son heil­brigðis­ráð­herra og Guð­laug Rakel Guð­jóns­dóttir, settur for­stjóri Land­spítala, í að­sendri grein á Vísi.

„Fram undan eru loka­metrar þessarar bylgju og þá skiptir máli að verk­efnið sé skýrt af­markað svo að við missum ekki sjónar á því hvert við ætlum okkur,“ segir í greininni.

Ein­kenni Omíkron af­brigðisins eru vægari og inn­lagnir færri en fólk veikist þó og í miklu magni börn og ung­menni, með til­heyrandi röskun á sam­fé­laginu. „Brýnt er því að skoða hvernig megi létta á sótt­varnar­ráð­stöfunum til að halda sam­fé­laginu sem mest gangandi,“ segja Willum og Guð­laug.

Allar mögu­legar af­léttingar séu nú í skoðun í sam­ráði við sótt­varna­lækni, með hlið­sjón af skyn­semi og öryggi. „Næstu skref eru að af­létta neyðar­stigi spítalans. Áður en það er gert verðum við að vera full­viss um að slíkt sé ó­hætt,“ segir í greininni.

Öll skref verði tekin með hlið­sjón af nýjustu upp­lýsingum og gögnum frá sér­fræðingum.

Heilbrigðiskerfi í forgangi


Öflugt heil­brigðis­kerfi þarf að hafa for­gang ef við ætlum að komast út úr heims­far­aldri kórónu­veirunnar, segja Willum og Guð­laug. „Ó­sér­hlífni og hug­vit heil­brigðis­starfs­fólks þegar á reynir hefur verið að­dáunar­vert,“ segja þau í greininni.

Inn­lagnir og eftir­köst vegna Co­vid-sýkinga kalla á tvö­falda um­önnun og gerir starfs­fólki erfiðara fyrir að anna verk­efnum ó­tengdum veirunni. Willum og Guð­laug segja það frum­skyldu stjórn­valda að tryggja að­stæður þar sem allir geti sótt sér við­unandi heil­brigðis­þjónustu.

Í gær voru 187 starfs­menn Land­spítala í ein­angrun vegna veirunnar, með til­heyrandi röskun og mönnunarvanda. Nú eru þeir orðnir 200, samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Landspítalanum.

„Við þessu hefur þurft að bregðast hratt, hafa bæði sjálf­stætt starfandi aðilar, heil­brigðis­stofnanir um allt land og ein­staklingar í bak­varðar­sveitum sýnt snör við­brögð til að tryggja mönnun á Land­spítala,“ segir í greininni.

Spítalanum hefur einnig verið veitt svig­rúm til að greiða fyrir við­bótar­vinnu­fram­lag næstu fjórar vikurnar. Willum og Guð­laug telja að það muni auka mönnun um tuttugu til þrjá­tíu prósent.

„Saman hefur okkur því tekist að brúa bilið vegna á­skorunar um mönnun og Land­spítali stendur sterkari,“ segja Willum og Guð­laug.

Co­vid-göngu­deildin hefur einnig gefið góðan árangur, segir í greininni. Með­ferð þar hafi dregið úr inn­lögnum og þjónustan er stöðugt að­löguð eftir því sem skilningur á veirunni eykst.

„Allt sam­fé­lagið hefur lagt mikið á sig til að ná þessum árangri sem nú blasir við. Með því að standa saman að sótt­varna­ráð­stöfunum höfum við náð að hemja vöxt veirunnar, vernda okkar við­kvæmustu hópa og draga úr á­lagi á heil­brigðis­kerfið,“ segja Willum og Guð­laug.