„Það er fljúgandi hálka þarna,“ segir Marta Sonja Gísladóttir, bóndi á Heiði í Biskupstungum, og eigandi landsins þar sem fossinn Faxi rennur. Hún lét í dag loka fyrir aðgengi að bílastæði þar sem þeir leggja sem ætla að ganga að fossinum. Um afar vinsælan ferðamannastað er að ræða. Aðgengi að Faxa verður lokað næstu daga, í það minnsta.

Forsaga málsins er sögn Mörtu myndband og umræða sem birt var á Facebook-síðunni Bakland Ferðaþjónustunnar. Þar vakti maður athygli á því að fljúgandi hálka væri á svæðinu og göngupallur á staðnum væri afar varasamur. Hann gagnrýndi í myndbandinu skort á þjónustu á ferðamannastöðum á landinu. „Þetta er svona sem er tekið á þessum túristamálum hérna. Það er enginn sem sér um þessa staði. Þetta er ótrúlegt. Þetta er stærsti iðnaðurinn á Íslandi og þetta er auglýsingin.“

Marta segir í samtali við Fréttablaðið að í þræðinum hafi sú skoðun verið sett fram að þau bændurnir gætu verið ábyrgir ef einhver slasaði sig á jörðinni. „Það var talað um slóðahátt og slugsahátt að hreinsa þetta ekki.“ Hún segir að sú ákvörðun að loka aðgengi að fossinum hafi einfaldlega verið hennar fyrstu viðbrögð við þessum upplýsingum. Þau þurfi að kynna sér málið og taka af allan vafa um skaðabótaábyrgð áður en opnað verði aftur.

Þau bændurnir eru á Kanaríeyjum og fólu vinnumanni á bænum að loka innkeyrslunni á bílastæðið með heyrúllum. „Það er ekkert annað í stöðunni en að hafa þetta lokað. Sá sem fer yfir lokanirnar er þá á eigin ábyrgð,“ segir Marta, sem kemur heim á þriðjudag.

Hún segir að í framhaldinu verði málið skoðað með lögmanni en segir útilokað að landeigendur fari að sinna þarna vetrarþjónustu án þess að hafa nokkuð upp úr því. Þau hafi þegar lagt út 40% af kostnaði við uppsetningu göngupalls, sem settur var niður til að vernda landið fyrir áganginum. Hún segist velta því fyrir sér hvort þau þurfi að fara að rukka inn á svæðið, til að geta staðið undir uppbyggingu og tryggt öryggi ferðamanna. Við þeim vangaveltum þurfi þau að finna svör, eins og landeigendur víða um land.

Faxi er mjög vinsæll viðkomustaður enda skammt úr leið þegar Gullni hringurinn er ekinn. Marta segir að mjög algengt sé að sjá fimm  til átta rútur þarna í einu, allt árið um kring. Hún segist telja að á hverjum degi heimsæki hundurð manna fossinn. „Við viljum að sem flestir fái að njóta þessarar perlu,“ segir hún. Öryggi verði hins vegar að vera í fyrirrúmi.