Lokað er fyrir innlagnir á geðendurhæfingardeild Klepps vegna Covid-19 smits sem greindist hjá sjúklingi í gær í reglubundinni skoðun.

Þetta kemur fram á vef Landspítalans.

Þar segir að geðendurhæfingardeildin á Kleppi sé í sóttkví á meðan verið sé að rekja smitið.

Öll deildin er í sóttkví, bæði starfsmenn og sjúklingar.

Deild í sóttkví þarf að takmarka umgang eins og mögulegt er, að því er fram kemur í tilkynningunni. Öll óþarfa umferð er bönnuð en allt sem er nauðsynlegt að gera er heimilt með notkun viðeigandi hlífðarbúnaðar.

Í dag liggja 22 vegna COVID á Landspítala, þar af eru 17 í einangrun. Í gær lögðust þrír inn eftir skoðun í COVID göngudeild og einn inniliggjandi sjúklingur greindist í reglubundinni skimun.