Vegna bilunar í Nesja­valla­virkjun eftir að sprenging varð þar í morgun er engin fram­leiðsla á heitu vatni á Nesja­völlum sem stendur. Frá þessu er greint í til­kynningu frá Veitum en þar kemur fram að heildar­fram­leiðslu­geta á heitu vatni fyrir hita­veitu höfuð­borgar­svæðisins sé skert um 30 prósent.

„Við bilunina kom högg á dreifi­kerfi hita­veitunnar með þeim af­leiðingum að leki kom að annarri Reykja­æðinni en þær flytja heitt vatn frá Mos­fells­bæ til borgarinnar. Hita­veitu­geymar á Reyni­svatns­heiði hafa því sem næst tæmst í morgun,“ segir í til­kynningunni og til­greind þau svæði þar sem lokað er fyrir heitt vatn frá klukkan 14 til 18.

En það er í Lindum, Smára og vestur­bæ Kópa­vogs og í Garða­bæ (utan Urriða­holts og Holts­búðar) frá kl. 14:00-18:00 í dag (sjá kort).

Í til­kynningunni segir enn fremur að í morgun hafi verið gripið til fjöl­margra að­gerða til að mæta þessari stöðu eins og að færa fjölda hverfa á höfuð­borgar­svæðinu, sem fengu vatn frá virkjunum, yfir á vatn úr bor­holum á lág­hita­svæðum í Reykja­vík og Mos­fells­bæ. Hellis­heiðar­virkjun er keyrð á fullum af­köstum.

Unnið er mark­visst að því að koma fram­leiðslu heits vatns í virkjuninni í gang. Við­gerðum í virkjuninni, sem á­ætlað er að taki nokkra daga, verður hagað þannig að sem minnst truflun verði á fram­leiðslu heits vatns.

Veður­spá gerir ráð fyrir kulda­tíð næstu daga og má því búast við að notkun á heitu vatni verði mikil. Fólk er hvatt til að fara ein­stak­lega spar­lega með heita vatnið og hafa glugga lokaða og úti­dyr ekki opnar lengur en nauð­syn krefur til að tapa ekki varma úr húsum.

Kort af lokunar­svæðinu er að finna hér auk þess sem það má sjá það hér að ofan og neðan.

Mynd/Veitur