Neyðar­stig er enn í gildi á Seyðis­firði og hættu­stig á Eski­firði næsta sólar­hringinn. Staðan verður endur­metin klukkan 11 á morgun í sam­ráði við Veður­stofu Ís­lands.

Neyðar­stig al­manna­varna er í gildi á svæðinu. Öll um­ferð um Seyðis­fjörð er bönnuð þar til annað verður á­kveðið,“ segir í til­kynningunni.

Þar kemur fram að engra er saknað eftir að skriðurnar féllu og að engin slys hafa verið til­kynnt. Eftir að staðan verður endur­metin klukkan 11 á morgun verður send til­kynning á íbúa og þau látin vita hvort eða hvernig þau geti vitjað heimila sinna og muna.

540 í­búar frá Seyðis­firði skráðu sig í fjölda­hjálpar­stöð Rauða kross Ís­lands í Egils­staða­skóla á Egils­stöðum. 165 í­búar á Eski­firði skráðu sig í mót­töku­stöð Rauða kross Ís­lands sem sett var upp í Eski­fjarðar­kirkju og boðið að gista í fjölda­hjálpar­stöð á Norð­firði. Enginn þurfti á gistingu að halda samkvæmt tilkynningu.

Mikil eyðilegging

Stór aur­skriða féll úr Botna­brún, milli Búðar­ár og Stöðvar­lækjar, skömmu fyrir klukkan þrjú í dag og féll á tíu hús. Eitt hús skemmdist í skriðu nóttina áður. Frekar á eftir að meta tjón á staðnum. Í kjöl­farið á­kvað Ríkis­lög­reglu­stjóri að hækka al­manna­varna­stig á Seyðis­firði úr hættu­stigi í neyðar­stig. Allir í­búar og aðrir á Seyðis­firði voru beðnir um að mæta í fé­lags­heimilið Herðu­breið og gefa sig fram í fjölda­hjálpar­stöð Rauða krossins eða hringja í síma 1717. Síðar var á­kveðið að Seyðis­fjörður yrði rýmdur sem gekk vel.

Ofan­flóða­vakt Veður­stofu Ís­lands á­kvað eftir að skriðan féll að kanna betur á­standið í öðrum fjörðum. Kom í ljós að sprungur í gamla Odd­skarðs­veginum ofan Eski­fjarðar höfðu stækkað og í kjöl­farið var á­kveðið að rýma hluta af Eski­firði og var opnuð fjölda­hjálpa­stöð þar.

Allar björgunar­sveitir á Austur­landi hafa verið boðaðar á­samt sér­sveit ríkis­lög­reglu­stjóra og lög­reglunni á Norður­landi eystra einnig verið send á staðinn.