Full­trúa­deild Banda­ríkja­þings mun í dag taka fyrir efna­hags­pakka til að bregðast við á­hrifum CO­VID-19 far­aldursins en miklar um­ræður hafa verið um pakkann síðast­liðnar vikur, sem hljóðar upp á 1,9 billjónir Banda­ríkja­dala. Pakkinn var sam­þykktur af öldunga­deildinni um helgina og er talið að hann verði sam­þykktur af full­trúa­deildinni síðar í dag.

Meðal þess sem kveðið er á um í pakkanum eru allt að 1400 dala greiðsla til Banda­ríkja­manna auk þess sem at­vinnu­leysis­bætur verða á­fram 300 dalir á viku fram til septem­ber. Þá myndu ríki og ríkis­stofnanir fá aukið fjár­magn, meðal annars til að hjálpa til við opnun skóla.

Tekist á um pakkann

Fullrúa­deildin hafði í síðasta mánuði sam­þykkt annan efna­hags­pakka en breytingar voru gerðar á honum, meðal annars var fallið frá því að at­vinnu­leysis­bætur yrðu hækkaðar í 400 dali viku­lega og að lág­marks­laun yrðu hækkuð. Þegar kemur að at­vinnu­leysis­bótum var enn fremur á­kveðið að þær yrðu tekju­tengdar.

Repúblikanar innan þingsins hafa gagn­rýnt að­gerðirnar og segja að að­gerðirnar geri ekki nóg fyrir Banda­ríkja­menn heldur sé þar um að ræða eyðslu í opin­berar stofnanir, ó­tengdar far­aldrinum. Þar sem Repúblikanar eru í minni­hluta innan beggja deilda hafa þeir þó ekki náð að stöðva pakkann.

Stórt skref

Frá upp­hafi far­aldursins hafa rúm­lega 29 milljón til­felli smits verið stað­fest í Banda­ríkjunum og hafa tæp­lega 528 þúsund manns látist eftir að hafa smitast. Far­aldurinn virðist nú vera í niður­sveiflu þar í landi en Banda­ríkin eru enn leiðandi á heims­vísu þegar kemur að fjölda smita og and­láta.

Þrátt fyrir að dregið hafi úr út­breiðslu veirunnar eru margir enn að glíma við efna­hags­legar af­leiðingar far­aldursins. Nan­cy Pelosi, for­seti full­trúa­deildarinnar, sagði í gær að efna­hags­að­gerðirnar væru stórt skref í áttina á að kveða niður veirunnar og leysa efna­hags­krísuna.

Stærsta verkefni Bidens

Ef full­trúa­deildin sam­þykkir pakkann, sem er nánast öruggt þar sem Demó­kratar eru þar í meiri­hluta, verður hann sendur til Joes Biden Banda­ríkja­for­seta til stað­festingar. Pakkinn verður meðal stærstu að­gerða sem Biden hefur gripið til frá því að hann tók við em­bætti for­seta fyrir sjö vikum en hann hefur lagt mikla á­herslu á við­brögð við CO­VID-19.

Á­ætlað er að Biden muni fara yfir að­gerðirnar í beinni út­sendingu á morgun, einu ári eftir að gripið var til að­gerða þar í landi vegna far­aldursins.