Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hja Ríkislögreglustjóra sagði embættið hafa fengið 4 tilkynningar um íþróttaæfingar, eina með 50 manns, í gær en dró það síðan til baka. Þetta væri ekki skipulagt af félögunum. Ungmennafélagi Íslands hefur hins vegar borist nálægt 10 tilkynningar.

„Við höfum komið skilaboðum okkar til viðkomandi félaga í þeim atvikum sem ratað hafa inn á okkar borð. Sumar tilkynningar hafa þó verið þess eðlis að ekki hafi verið hægt að greina félagið,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

Samkomubann vegna COVID-19 faraldursins var hert úr 100 manns niður í 20 fyrir viku síðan. Var þá meðal annars líkamsræktarstöðvum, sundlaugum og skíðasvæðum lokað. Þá hafa heilbrigðis- og menntamálaráðuneyti mælst til að öllu íþrótta og æskulýðsstarfi barna og ungmenna, sem felur í sér blöndun og snertingu verði hætt meðan á banninu stendur. ÍSÍ og UMFÍ hafa gefið út yfirlýsingu þar sem því er treyst að íþróttafélög fari að tilmælum hins opinbera.

auður.jpg

Auður Inga Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri UMFÍ

Auður segir að ýmis álitamál hafi komið upp, til dæmis hvort reiðhallir séu íþróttamiðstöðvar. Þá séu framkvæmdastjórar félaga að hringja til að spyrja ráða um hvað sé leyfilegt. „Allir sem við höfum rætt við eru samvinnufúsir. Fólk er að leita leiða til að stunda hreyfingu og fer kannski í sumum tilvikum aðeins of geyst,“ segir hún. Mestu máli skipti að ekki sé verið að nota sameiginlegan búnað, svo sem bolta. „Það eru um 500 íþróttafélög á landinu og langflest standa sig vel.“

Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, sagði að tilvikin 4, sem Víðir nefndi yrðu skoðuð. Eitt þeirra hafi þegar verið leyst en um hafi verið að ræða óskipulagða hópmyndun barna á gervigrasvelli Breiðabliks sem kallast Fagrilundur, en ekki æfingu á vegum félagsins. „Við leggjum áherslu á að fólk virði þetta bann og höfum staðið í þeirri trú að fólk geri það. Það er spurning hvort að þurfi ekki að beina skilaboðum til krakkanna og ef til vill loka þessum svæðum,“ segir Lárus.

Íþróttavellir eru víða opnir og borið hefur á að íþróttafólk æfi saman í laumi. Hvað varðar Fagra-lund og aðra spark- og gervigrasvelli, ákvað Kópavogsbær að loka þeim á laugardag.

Í tilkynningu frá Breiðabliki eru iðkendur hvattir til að sinna heimaæfingum og einstaklings-prógrammi sem þjálfarar hafa útbúið en engar skipulagðar æfingar eru á vegum félagsins og allt starf liggur niðri.