Af öryggis­á­stæðum hefur lög­reglu­stjórinn á Suður­nesjum á­kveðið að loka fyrir um­ferð um Suður­strandar­veg að gos­stöðvum í Geldinga­dölum kl. 21 í kvöld. Þá verða Geldinga­dalir rýmdir fyrir kl. 24 eða á mið­nætti. Þetta kemur fram í til­kynningu frá lög­reglunni á Suður­nesjum.

„Þörf er á að hvíla björgunar­lið sem nú hefur staðið vaktina í rúma viku en ekki er sjálf­gefið að hægt verði að tryggja öryggi fólks seint um kvöld og að nætur­lagi við gos­stöðvarnar í því marg­menni sem þar hefur verið síðustu daga,“ segir í til­kynningunni.

Þá getur komið til lokana á Suður­strandar­vegi fyrir­vara­laust ef í ó­efni stefnir með bíla­stæði á svæðinu eða ef upp koma að­stæður er krefjast tafar­lausra að­gerða af hálfu við­bragðs­aðila.

Sóttvarnalæknir hvetur fólk til að vera heima

Vegna smit­hættu hefur sótt­varna­læknir ein­dregið hvatt fólk til þess að vera heima og láta vera að heim­sækja eld­stöðvarnar.

„Þar sem eld­gosið virðist ekki vera á undan­haldi ætti að gefast nægur tími til að berja það augum en á­gæt­lega lítur út með veður á næstu dögum. Hingað til hefur gengið vel og engin slasað sig illa. Við viljum vera á þeim stað á­fram en til að tryggja það er nauð­syn á að hefta ei­lítið að­gang fólks eins og hér hefur verið lýst,“ segir enn fremur í til­kynningu lög­reglunnar.

Á­kvörðun um opnun Suður­strandar­vegar verður síðan tekin í fyrra­málið kl. 7.

Björgunarsveitir bera slasaðan gest við rætur eldgossins á miðvikudaginn.
Ljósmynd/Stefán Pálsson

Tilkynning frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Af öryggisástæðum hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákveðið að loka...

Posted by Lögreglan á Suðurnesjum on Sunnudagur, 28. mars 2021