Tökur á stórri kvikmynd munu fara fram í Reykjavík þann 4. apríl, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Mun Truenorth annast framleiðslu myndarinnar hér á landi.

Grípa þarf til víðtækra götulokana í Reykjavík við tökur myndarinnar en samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hefur ekki verið gefið út afnotaleyfi vegna lokananna, það sé í vinnslu.

„Einnig er verið að fullklára merkingar­áætlanir sem snúa að götulokunum og afmörkun á öðrum svæðum í borgarlandinu,“ segir í skriflegu svari borgarinnar við fyrirspurn Fréttablaðsins. Þar segir einnig að flóknustu tökurnar muni fara fram á Frakkastíg, Sæbraut og við Hörpu.

„Á þessum stöðum mun þurfa að loka fyrir umferð í nokkrar klukkustundir í senn, en öll umferð leidd fram hjá með hjáleiðum. Hvert svæði verður opnað um leið og tökum þar lýkur.“