Stjórnvöld í Ísrael hafa lokað fyrir einu leið fólksflutninga um landamæri Ísraels og Gaza. Í um áratug hefur Ísrael haft stjórn á umferð um landamæri Gaza. Undanþágur verða þó veittar í neyðartilfellum.  Í síðustu viku opnuðu yfirvöld einu leiðina fyrir birgðaflutninga til Gaza en þá hafði leiðin verið lokuð í mánuð. 

Lokunin gæti haft áhrif á friðarviðræður Ísraels og Hamas. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum og Egyptum sem miðla málum í viðræðunum, miðar þeim vel áfram og eru taldar töluverðar líkur á að samningar náist um vopnahlé á næstunni. 

Undanfarna mánuði hafa mótmæli verið tíð við landamæri Gaza. Yfir 170 Palestínumenn hafa verið skotnir til bana af ísraelskum hermönnum við landamærin síðan í mars vegna mótmæla.  

Varnarmálaráðherra Ísraels segir lokun landamæranna vera vegna ofbeldisatvika við landamærin á föstudag. Ísraelsherinn segir að nokkur fjöldi Palestínumanna hafi komist inn á ísraelskt yfirráðasvæði og þeir kastað eldsprengjum yfir landamærin. Ekki er vitað til þess að nokkur Ísraelsmaður hafi særst í átökunum. Fjöldi Palestínumanna særðust í mótmælunum og tveir létu lífið þegar Ísraelsher svaraði mótmælendum með byssuskotum.

Sjá einnig: Upp­blásnir smokkar notaðir gegn Ísraels­mönnum