Tekin hefur verið ákvörðun um að loka Fossgosskóla eftir að skóladegi lýkur á miðvikudaginn kemur, eftir að skoðun og sýnataka í skólanum leiddi í ljós að raka-og loftgæðavandamál voru til staðar í skólanum. Bæði nemendur og starfsfólk hafa kvartað undan einkennum vegna þessa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Um er að ræða varúðarráðstöfun á meðan endurbætur fara fram svo hægt sé að opna Fossvogsskóla að nýju í haust. Ákvörðunin er tekin á grundvelli skýrslna, með hliðsjón af áætlun um þær framkvæmdir sem ráðast þarf í og eftir samráð skólastjórnenda, fulltrúa foreldra, skólaráðs, heilbrigðiseftirlitsins, umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar og skóla- og frístundasviðs

Sjá einnig: Mikil röskun á skólastarfi í Fosvogsskóla

Um tólf vikur eru eftir af skólaárinu og þarf því að finna pláss fyrir þá 352 nemendur sem eru í Fossvogsskóla. Nemendur í 4. bekk munu vera áfram í lausum kennslustofum á lóðinni en verið er að útvega húsnæði fyrir 1.-3. bekk og 5.-7. bekk. Það mun liggja fyrir á næstu dögum en markmiðið er að finna húsnæði sem næst Fossvoginum fyrir yngri börnin en útvega skólaakstur fyrir eldri nemendur ef þess þarf.

Hefðbundið skólastarf mun því fara fram í Fossvogsskóla frá mánudegi til miðvikudags en skipulagsdagar skólans verða færðir til fimmtudags og föstudags í þessari viku og kennsla því falla niður. Mánudaginn 18. mars mun kennsla hefjast að nýju. Foreldrum verður tilkynnt nánar um staðsetningu um leið og hún liggur fyrir. 

Að loknu sumarleyfi mun endurbótum verða lokið og nemendur geta snúið aftur í Fossvogsskóla, að því er fram kemur í tilkynningunni. Þar segir jafnframt að borgaryfirvöld muni vinna áfram að málinu í nánu samráði og samstarfi við skólastjórnendur, starfsfólk og foreldra.