Covid-göngudeild Landspítala verður lokað á næstu dögum. Samkvæmt upplýsingum frá Sólveigu Hólmfríði Sverrisdóttur, yfirmanni deildarinnar, verður henni lokað fyrir páska, jafnvel í lok þessarar viku.

„Það er orðið lítið um skoðanir þarna í Birkiborginni og við erum búin að loka símaverinu okkar og erum núna að fara að loka göngudeildinni,“ segir Sólveig og bætir við að með minni starfsemi og álagi á deildinni sé ekki forsvaranlegt að hafa þar starfsfólk, það geti nýst betur á öðrum deildum spítalans.

Í gærmorgun lágu 60 sjúklingar á Landspítala með Covid-19. Tveir voru á gjörgæslu, báðir í öndunarvél. Meðalaldur sjúklinga með Covid á spítalanum var í gær 73 ár.

Hólmfríður segir að enn sé mikið álag á Landspítalanum vegna Covid-19. Þó séu ekki allir þeir sem þar liggja inni með sjúkdóminn mikið veikir. „Það eru ekki allir sem liggja inni með Covid inniliggjandi vegna Covid. Margir koma vegna einhvers annars og margir voru líka inniliggjandi fyrir út af einhverju öðru,“ segir hún.

Óskar Reykdalsson forstjóri.jpg

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins.

Á heimasíðu Landspítalans er því beint til almennings að hringja ekki á deildir spítalans í leit að upplýsingum um viðbrögð vegna Covid-19. Fólki er bent á að hafa samband við Læknavaktina og heilsugæsluna, einnig getur fólk haft samband í gegnum netspjall á Heilsu­veru­-vefnum.

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir álagið á heilsugæsluna vegna Covid enn mikið. Á hverjum degi hafi um 1.300 til 1.500 einstaklingar samband. „Flestir sem hafa samband eru að leita ráða og eru ekki alvarlega veikir en það er alltaf einn og einn sem þarf þá að koma til okkar eða fá samband við lækni,“ segir Óskar.

Þá segir hann mikið að gera í öllum einingum heilsugæslunnar og hvetur fólk til að leita sér upplýsinga á vef Heilsuveru en hvetur þó einnig þau sem þurfi á aðstoð að halda til að hafa samband við heilsugæsluna. „Inni á Heilsuveru-vefnum eru miklar og greinargóðar upplýsingar sem gætu nýst fólki en þau sem þurfa frekari upplýsingar ættu endilega að hafa samband við okkur.“

Hagnýt ráð til Covid sjúklinga:

Drekka vel til að koma í veg fyrir þurrk.

Fá góða hvíld.

Taka hitalækkandi lyf, til dæmis Parasetamól.

Liggja á hliðum eða sitja upprétt ef hósti er mikill en forðast að liggja á baki.

Slímlosandi freyðitöflur sem fást í lyfjaverslunum geta hjálpað.

Gott er að setjast upp á um það bil klukkutíma fresti og gera nokkrar öndunaræfingar, anda djúpt ofan í maga.

Hvert skal leita?

Heilsugæslan – 513 1700

Læknavaktin – 1700

Heilsuvera.is