Yfir­völd í Jia-sýslu í kín­verska héraðinu Henan til­kynntu í gær að grípa til að­gerða á ný eftir að nokkur ný til­felli CO­VID-19 komu upp á svæðinu. Um 600 þúsund manns búa í sýslunni en lagt hefur verið bann við ferða­lögum fólks þaðan auk þess sem fólk þarf sér­stakt leyfi til að yfir­gefa heimili sín.

Tölu­vert hefur hægt á út­breiðslu veirunnar í Kína, þar sem hún kom fyrst upp um ára­mótin, en yfir­völd í landinu óttast nú að von sé á annarri bylgju. Alls hafa rúm­lega 82 þúsund manns smitast af veirunni í Kína og 3.322 látist en flest ný smit í landinu koma frá fólki sem höfðu verið að ferðast er­lendis.

Fyrirtækjum og verslunum lokað

Að því er kemur fram í frétt South China Morning Post hefur nánast öllum fyrir­tækjum í sýslunni verið lokað sem og verslunum, fyrir utan mat­vöru­verslanir, bensín­stöðvar, apó­tek, og hótel. Að­eins fólk með sér­stakt leyfi má fara í vinnuna og má að­eins nota bíla á á­kveðnum dögum.

Stað­fest til­felli á heims­vísu af völdum CO­VID-19 eru nú rúm­lega 941 og hafa hátt í 48 þúsund manns látist. Fyrir utan Kína eru löndin með flest stað­fest til­felli Banda­ríkin, Ítalía og Spánn en aukningin í þeim löndum hefur verið tölu­verð síðustu daga.

Ný tilfelli um smit af völdum veirunnar hefur fækkað töluvert í Kína síðustu vikur.
Skjáskot/John Hopkins háskólinn
Staðan á heimsvísu.
Skjáskot/John Hopkins háskólinn