Lögregluþjónn hjá embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur greinst með COVID-19. Þrettán lögreglumenn voru sendir í sóttkví vegna þessa og eru fimm til viðbótar í úrvinnslusóttkví.

Ekki er talið að lögregluþjónninn hafi smitast við störf sín hjá embættinu. Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni að gripið hafi verið til viðeigandi ráðstafana um leið og málið kom upp í gær. Er núna unnið að því að tryggja mönnun á vaktir vegna þeirrar stöðu sem upp er komin.

Að sögn lögreglu hefur tilfellið einungis áhrif á eina lögreglustöð í umdæminu þar sem embættinu var skipt upp í sótthólf föstudaginn 31. júlí.

Tveir sendir í sóttkví á Norðurlandi eystra

Greint var frá því í gær að tveir lögregluþjónar hjá embætti lögreglunnar á Norðurlandi eystra væru komnir í sóttkví eftir samskipti við smitaðan einstakling.

Þeir hafa verið í sóttkví síðustu daga en hafa ekki greinst með veiruna. Einstaklingurinn varð á vegi lögreglumannanna á meðan þeir sinntu hálendiseftirliti norðan við Vatnajökul.

Fréttin hefur verið uppfærð.